Annarra að fást við afleiðingarnar

Stórskipið Brúarfoss í höfn. Samtök atvinnulífsins (SA) og Samtök verslunar …
Stórskipið Brúarfoss í höfn. Samtök atvinnulífsins (SA) og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa gagnrýnt sinnuleysi stjórnvalda í máli sem snýr að auknum álögum á skipafélög í formi kaupa á kvóta á losunarheimildum en tilskipun Evrópusambandsins (ETS-kerfið) þar um tekur gildi um áramót. mbl.is/Sigurður Bogi

Samtök atvinnulífsins (SA) og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa gagnrýnt sinnuleysi stjórnvalda í máli sem snýr að auknum álögum á skipafélög í formi kaupa á kvóta á losunarheimildum en tilskipun Evrópusambandsins (ETS-kerfið) þar um tekur gildi um áramót.

Tilskipunin tekur þó gildi í áföngum og verður að fullu tekin gildi árið 2026.

Samtökin tvö sendu ásamt Samtökum Iðnaðarins og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi bréf til ráðherra í lok júní þar sem athygli var vakin á stöðunni en ekki hefur enn borist formlegt svar frá ráðherra.

Eðlilegra að svör bærust fyrr

Þórdís hefur í samtali við mbl.is og Morgunblaðið sagt að ekki standi til að sækjast eftir undanþágum frá tilskipun Evrópusambandsins, sem snýr að auknum álögum á skipafélög í formi kaupa á kvóta á losunarheimildum, vegna séríslenskra aðstæðna líkt og gert var í tilfelli flugrekstrar.

Í skriflegu svari SA og SVÞ til mbl.is furða samtökin sig á sinnuleysi stjórnvalda í málinu og í ljósi svara ráðherra, meðal annars í Morgunblaðinu í dag, megi ef til vill segja að það hefði verið heppilegra og eðlilegra að þau bærust fyrr, eins og það er orðað í svari samtakanna.

Þar segir jafnframt að fyrstu fréttir af málinu hafi borist stjórnvöldum frá skipafélögunum eftir síðustu áramót og að framan af megi segja að bæði Stjórnarráðið og innlendir hagsmunaaðilar hafi verið að átta sig á stöðunni.

Segir þá að samskipti við Stjórnarráðið hafi í grundvallaratriðum verið góð en tilfinning samtakanna tveggja sé þó að íslensk stjórnvöld hafi áttað sig seint á hvað væri á ferðinni en „mjög snemma tekið þann pól í hæðina að þarna væri „orðinn hlutur“ á ferðinni.“

Neytendur og fyrirtæki borgi brúsann

Ráðherra sagði í viðtali við Morgunblaðið, sem birtist í morgun, að engar sérstakar aðstæður á Íslandi kalli á að reglur um kvóta um losunarheimildir fyrir skipafélög verði teknar upp hér. Því eru samtökin tvö ósammála. Í svari þeirra við spurningum mbl.is segir að beinlínis sé gert ráð fyrir tilhliðrunum fyrir fámenn ríki, ríki sem eru fjarri helstu siglingaleiðum og ríki sem eru háð vöruflutningum á hafi.

„Af svörum ráðherra að dæma virðist sem hún noti flugið sem viðmið þar sem mat manna var að slíkri starfsemi yrði að óbreyttu stefnt í hættu hér á landi. Það eru litlar líkur á að skipaflutningar muni leggjast af vegna þátttöku í ETS-kerfinu og því varðar málið í raun ekki framtíð þeirra.

Hins vegar mun þátttakan kosta töluverða fjármuni sem koma munu úr vasa innlendra neytenda, fyrirtækja og ekki síst útflutningsfyrirtækja. Í því samhengi má gera ráð fyrir að kostnaðaráhrif vegna vara verði að tiltölu mikil hér í samanburði við vörur sem fara þurfa styttri siglingaleiðir.“

Mat ráðherra ekki rétt

SA og SVÞ segja skipaflotann sem hingað sigli ekki stóran í samanburði við flota margra ríkja Evrópu en Íslendingar séu honum samt sem áður háðir þar sem við séum fá og allverulegur hluti flutninga til og frá landinu eigi sér stað með skipum.

Ráðherra hefur gefið til kynna í máli sínu að áhrifin hér á landi verði takmörkuð þar sem skipafélögin sigli hvort sem er með viðkomu í Færeyjum. Samtökin tvö benda í í skriflegum svörum sínum að staðreyndin sé sú að fjölmörg skip hafi þar ekki viðkomu, þar á meðal þau sem flytja eldsneyti, timbur og fisk.

„Skip annarra skipafélaga hafa aðeins að hluta viðkomu í Færeyjum og því er ljóst að mat ráðherra er ekki alveg rétt. Ef til vill gæti viðbótarviðkoma í Færeyjum breytt stöðunni sem færi þó í bága við markmiðið um samdrátt losunar ef hvatt væri til hennar í því skyni að draga úr kostnaði.“

Veruleg óvissa ríkir um framboð raforku

Samtökin segja að áhrif ETS-kerfisins muni koma fram í því að kostnaður við nýtingu olíu hækki mjög mikið. „Það virðist vera markmiðið, þ.e. að gera olíunýtingu svo kostnaðarsama að það verði að minnsta kosti jafn fýsilegt að nýta aðra orkugjafa til að knýja flutningaskip.“

Segja samtökin að stjórnvöld hafi sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og það sé keppikefli atvinnulífsins að skila árangri þar. Segja þau að svipaðar aðgerðir hafi nýst ágætlega við orkuskipti í fólksbílaflota landsmanna en þar hafi einnig fylgt veruleg meðgjöf af hálfu hins opinbera.

„Spurningarnar sem skipafélögin standa hins vegar frammi fyrir eru hvar eiga þau að fá þessi skip og hvar eiga þau að fá nýjan orkugjafa til að knýja þau?

Á meðan svör liggja ekki fyrir mun falla til kostnaður sem íslenskur almenningur og fyrirtæki munu bera. Í því samhengi má segja að það sé nokkuð kaldhæðnislegt að veruleg óvissa ríkir um framboð raforku hér á landi til að standa undir orkuskiptum.      

Heildarmyndin er því sú að markmið stjórnvalda í loftslagsmálum hafi einfaldlega orðið ofan á við hagsmunamat stjórnmálanna. Það er svo annarra að fást við afleiðingarnar. Það er sú hagsmunagæsla sem átti sér stað,“ segir í svari samtakanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert