Kvika mögulega á litlu dýpi: Askja undirbýr sig

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir það ekki æskilegt að vera við …
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir það ekki æskilegt að vera við Öskju. Samsett mynd

„Þá er þetta sem við erum að tala um bara á leiðinni. Ef hitinn í Víti er farinn að hækka svona mikið þá þýðir það að það er komin kvika þarna inn miðað við hvernig landbreytingin hefur verið.“

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í samtali við mbl.is spurður hvernig honum lítist á blikuna við Öskju eftir að vatnshiti í Víti mældist 27 gráður í gær. Það er um níu gráðum hærra en hefur mælst áður í sumar. 

Veðurstofa Íslands fékk ábendingu um skammlífan strók í Bátshrauni austan við Víti í gær sem gæti verið til marks um aukna gufuvirkni á svæðinu. Landris hófst í Öskju fyrir um tveimur árum og hefur land risið um 30 sentímetra frá því í september á síðasta ári.

Á litlu dýpi

Hann segir að miðað við hitabreytinguna í Víti gæti kvika verið á ansi litlu dýpi. 

„Það er engin önnur ástæða en sú að það er eitthvað að hita upp grunnvatnið þarna. Allur jarðhiti er búinn til með hitastreymi frá kviku. Ef hitastigið eykst þá ertu búinn að fá eitthvað heitara inn. Þetta hlýtur að vera á tiltölulega grunnu dýpi því að jarðhitavatnið er ekki að fara marga kílómetra niður í jarðskorpuna.“

Hann segir það nánast ómögulegt að sólarhitun hækki vatnshitan í Víti jafn mikið og raun ber vitni og tekur fram að hann hafi eytt miklum tíma á svæðinu og aldrei orðið var við að hitastigið verði svo hátt í vatninu.

Askja undirbýr sig

„Þessar vísbendingar virðast allar benda í sömu áttina það er að Askja sé að undirbúa sig. Við þurfum greinilega að fylgjast vel með hitastiginu. Ef það er kominn af stað órói í fjallinu þá getur það farið í gos einn, tveir og þrír. Við verðum allavega að vara fólk við því.“

Þorvaldur hefur áður biðlað til stjórnvalda að loka svæðinu við Öskju og varaði við því að stórslys gæti orðið ef gos myndi hefjast í eldstöðinni á meðan fólk er á svæðinu.

Almannavarnir lýstu yfir óvissustigi á svæðinu í september 2021 og er það enn í gildi. 

„Al­manna­varn­ir og lög­reglu­stjór­inn á Norður­landi eystra hafa nú þegar komið því í ferli að sett verði upp skilti og aðvar­an­ir á ferðaleiðum og það eru skilti sem snúa þá sér­stak­lega að þess­um jarðhrær­ing­um og þeirri hættu sem af því kann að leiða og leiðbein­ing­um um hvernig bregðast eigi við,“ sagði Sól­berg Svan­ur Bjarna­son, deild­ar­stjóri al­manna­varna, í samtali við mbl.is annan ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert