Ólíðandi hegðun gegn vinnandi fólki

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Gylfi Þór Gíslason, formaður Verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Gylfi Þór Gíslason, formaður Verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar. Samsett mynd

Atvinnulíf á Norðvesturlandi hefur mátt þola þrjú þung áföll í sumar, en þau má rekja til ákvarðana Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra og einstakra atvinnurekenda. Þetta kemur fram í harðorðri grein Gylfa Þórs Gíslasonar, formanns verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar.

Gylfi Þór, sem einnig er formaður Samfylkingarfélagsins á Vestfjörðum, skrifar greinina í Feyki, vikulegt héraðsfréttablað Norðurlands vestra og segir þrisvar hafa verið hátt reitt til höggs gegn vinnandi fólki í Norðvesturkjördæmi í sumar.

Fyrsta telur hann ávörðun eigenda rækjuvinnslunnar á Hólmavík að loka eftir 58 ára starfsemi og segja þar með upp öllum starfsmönnum fyrirtækisins eða 21 starfsmanni, sem sé hátt hlutfall vinnandi fólks á litlu atvinnusvæði. Þá hafi lokun starfsstöðvar Skagans 3X á Ísafirði nú á dögunum verið reiðarslag, en þar misstu 27 manns vinnuna.

Loks nefnir Gylfi Þór ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra að setja á hvalveiðibann sólarhring áður en veiðar áttu að hefjast. „Þetta snýst ekki um hvort hvalveiðar séu réttlætanlegar eða ekki. Hvernig staðið var að framkvæmd þessarar stöðvunar er rangt.“

Afdrifaríkar afleiðingar

Hann rekur hvernig slíkar ákvarðanir hafi áhrif á mun fleiri en starfsmennina eina, þar séu bæði fjölskyldur og byggðarlög undir, því fleiri störf tapist vegna ruðningsáhrifa og skatttekjur sveitarfélaga skerðist.

„Það er ólíðandi hvernig fjármagnseigendur og ríkisvaldið getur leyft sér að haga sér gagnvart launþegum og svona ákvarðanir bíta fast í fámennum og viðkvæmum byggðum landsbyggðarinnar. Starfsmenn stökkva ekki í vinnu á næsta hóteli eða í ferðaþjónustufyrirtæki. Þetta eru oft sérhæfð störf og þekking sem þar með fer af svæðinu.“

Ráðherranum eru ekki vandaðar kveðjurnar: „Með ólíkindum [er] hvernig ráðherra matvæla skuli voga sér að stöðva hvalveiðar nokkrum klukkustundum áður en þær áttu að hefjast. Það þarf að koma á meira atvinnuöryggi og að svona lagað geti ekki átt sér stað. Það þarf að koma á atvinnulýðræði á Íslandi þar sem launþegar eru aðilar að ákvörðunum er snerta hag þeirra, kjör og atvinnuöryggi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka