Mikilvægt að það komi ekkert hik

Dagur B.Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B.Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að ekkert hafi breyst síðustu vikur eða mánuði þegar komi að uppbyggingaráformum samgöngusáttmálans á höfuðborgarsvæðinu. Endurskoðun á kostnaðar- og tímaáætlun samkomulagsins stendur nú yfir, en fjármálaráðherra lýsti því nýlega yfir að núverandi fjárhagslegar forsendur samgöngusáttmálans gætu ekki gengið upp.

Dagur segir samkomulagið ekki vera í neinu uppnámi og að samningurinn sé bindandi fyrir ríki og sveitarfélög og hluti af langtímauppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu og þurfi að lifa af ríkisstjórnir og meirihlutaskipti sveitarfélaga. Hann boðar jafnframt kynningu á deiliskipulagi og útliti fyrsta áfanga borgarlínu í vetur.

Sáttmálinn standi enn fyrir sínu

Í samtali við mbl.is í síðustu viku sagði Dagur að staða sáttmálans væri þannig að hann stæði enn fyrir sínu. Fjöldi verkefna væri þegar kominn í framkvæmd og sumum jafnvel lokið, meðan önnur væru á hönnunarstigi. „Það er mikilvægt í mínum huga að það komi ekkert hik þar á.“

Varðandi endurskoðun sáttmálans segir Dagur að eðlilegt sé að standa í þeirri vinnu. Margar framkvæmdir séu mjög tímafrekar og aðrar þess efnis að erfitt sé að hafa tvær nálægar framkvæmdir í gangi á sínum tíma. „En það er líka mjög brýnt að við náum þeim árangri í breyttum ferðavenjum og samgöngumálum sem býr að baki. Þessi heildar- og framtíðarsýn um græna og góða þróun höfuðborgarsvæðisins,“ segir Dagur.

Bjarni segir fjármálalegar forsendur ekki ganga upp

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafði áður sagt í viðtali í Dagmálum að það væri smámsaman að koma í ljós að kostnaður framkvæmda sáttmálans væru verulega vanáætlaðar og að hann teldi nauðsynlegt að endurskoða allar forsendur samkomulagsins. „Það er langt frá því að fjármálalegar forsendur höfuðborgarsáttmálans geti gengið upp,“ sagði Bjarni.

Hann er ekki sá eini sem hefur gagnrýnt kostnaðaráætlunina, en Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, skrifaði aðsenda grein í Morgunblaðið í febrúar þar sem hún sagði ábyrgðahluta að staldra við og endurmeta áætlanir þar sem kostnaðaráætlun væri þegar komin 50 milljarða fram úr upphaflegi áætlun og verkið ekki enn hafið.

Samskipti sem hafa einkennst af miklum heilindum

Spurður út í þessa gagnrýni Bjarna og tímasetningu hennar, en skömmu áður hafði komið fram að fyrstu framkvæmdir við borgarlínu myndu hefjast í haust, segist Dagur ekki lesa mikið í orð hans. „Nei ætla ekki að túlka það neitt í þá veru því öll okkar samskipti og önnur samskipti milli ríkisins og sveitarfélaga hafa einkennst af miklum heilindum og ég á ekki von á öðru en að það haldi bara áfram.“

Þá segist Dagur ekki heldur skynja að aðrir sveitarstjórar séu komnir á bremsuna varðandi borgarlínu. „Nei þvert á móti tel ég fólk hafa talað fyrir uppfærslu sáttmálans til að það væri tryggt að við sjáum öll þessi verkefni í húsi og að það verði ekki hik á framkvæmdum þeirra, meðal annars í tengslum við fjármögnun þeirra,“ segir Dagur. Ítrekar hann að allir sveitarstjórar hafi frá fyrsta degi verið mjög samstíga í málefnum sáttmálans.

Samningur sem þarf að lifa af mannabreytingar

Dagur tekur jafnframt fram að samningur sem þessi þurfi að lifa af þótt breytingar verði á sveitarstjórnum eða í ríkisstjórn. Það hafi verið grunnforsenda í allri vinnunni. „Samgöngusáttmálinn er samningur og hann er bindandi og sveitarfélögin hafa greitt inn í hann í þó nokkur ár núna og ríkið líka og varið til þess umtalsverðu fé í undirbúning. Það var ekki tilviljun að það var búið um samgöngusáttmálann sem langtímasamning á grundvelli sýnar á mikilvægustu verkefnin á höfuðborgarsvæðinu. Það var meðal annars til þess að þessi verkefni þurfa að lifa af ríkisstjórnir og meirihlutaskipti í sveitarfélögum, því þetta eru hlutir sem taka tíma, en líka hluti af heildarsýn fyrir svæðið.“

Verkefni frá grunni taka lengri tíma

Ljóst er að fyrstu tímaáform um uppbyggingu samkvæmt samgöngusáttmálanum voru verulega bjartsýn, sérstaklega þegar kom að borgarlínu. Spurður um þetta segir Dagur að almennt hafi gengið mjög vel og hratt að fara í verkefni þar sem hönnun lá fyrir eða þar sem hún var komin áleiðis. Nefnir hann í því samhengi uppbyggingu hjólastíga, tvöföldun á kafla Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar, sem og framkvæmdir á Reykjanesbraut.

Hins vegar segir Dagur að framkvæmdir við heilt nýtt kerfi taki lengri tíma í undirbúningi. „En það eru líka verkefni þar sem við þurfum að byrja frá grunni að hanna, eins og borgarlínan, sem tekur tíma að hanna, en er hins vegar komin vel á veg.“

Deiliskipulag, útlit og hönnun kynnt í vetur

Endurskoðun samkomulagsins átti upphaflega að ljúka fyrir sumarið, en Dagur segir að vinnan hafi reynst umfangsmeiri og að hann vonist nú til að hún klárist í september eða október.

Þá segir Dagur að hann eigi von á að fyrstu verklegu framkvæmdir í tengslum við borgarlínu hefjist í haust og að farið verði í að kynna deiliskipulag, útlit og hönnun vegna fyrstu lotu í vetur. Fyrsta lota borgarlínunnar er samtals 14,5 km og gerir ráð fyrir legg frá Hamraborg niður í miðbæ yfir nýja brú yfir Fossvog og svo upp í Ártúnshöfða. Samkvæmt uppfærðri tímaáætlun sem gefin var út árið 2022 var gert ráð fyrir að leggurinn frá Hamraborg í miðbæinn yrði tilbúinn árið 2026, en að leggurinn upp að Ártúnshöfða verði tilbúinn ári síðar, árið 2027.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert