Surtseyjarsjómaðurinn fæst ekki í skýrslutöku

Ágúst Halldórsson birti færslu á TikTok þar sem hann kvaðst …
Ágúst Halldórsson birti færslu á TikTok þar sem hann kvaðst hafa strandað á Surtsey. Skjáskot/Tiktok

Eyjamaðurinn Ágúst Hall­dórs­son, sem sigldi á kaj­ak til Surts­eyj­ar í byrjun ágústmánaðar, hefur enn ekki fengist í skýrslutöku hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum sökum þess að hann er út á sjó við vinnu. 

Þetta staðfestir Karl Gauti Hjaltason, lög­reglu­stjóri í Vest­manna­eyj­um, í samtali við mbl.is.

Segir hann að skýrslutakan hefði undir hefðbundnum kringumstæðum átt sér stað fyrr en þar sem að Ágúst sé er ekki staddur á þurru landi þá sé það einfaldlega ekki hægt. Telur hann þó að skýrslutakan verði á næstunni.

Umhverfisstofnun kærði málið til lögreglu

Eins og mbl.is hefur áður fjallað um þá barst lögreglunni kæra frá Umhverfisstofnun vegna atviksins en ­stofn­unin tel­ur gjörninginn brjóta gegn 90. gr. laga um nátt­úru­vernd, sem fel­ur í sér refsi­á­byrgð vegna leyf­is­skyldra at­hafna.

Sjálfur sagði Ágúst í samtali við mbl.is í byrjun ágústmánaðar að lítið væri að frétta af málinu en að rík krafa væri af hálfu móður hans um að hann færi í ADHD-greiningu.

„Það er ekk­ert að frétta. Það eina sem er búið að breyt­ast fyr­ir mig núna er að mamma mín heimt­ar að ég fari í ADHD-grein­ingu. Ann­ars er ég mjög góður,“ sagði Ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert