Gagnrýnir lokaða sölu á Ljósleiðaranum

Ragnhildur Alda gagnrýnir að almenningur sé útilokaður frá kaupum á …
Ragnhildur Alda gagnrýnir að almenningur sé útilokaður frá kaupum á ljósleiðaranum. Samsett mynd

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir að sala á Ljósleiðaranum ehf., sem er fyrirtæki í almannaeigu, sé ekki opin almenningi. Þá segir hún markmiðin með útboðinu ganga í berhögg hvert við annað. 

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í maí að auka hlutafé Ljósleiðarans um 3.250 milljónir króna og bjóða hluthöfum til kaups. Um er að ræða lokað útboð sem einungis er opið hæfum fjárfestum og er stjórn Ljósleiðarans falið að framkvæma og meta væntanleg kauptilboð. 

Ragnhildur segir að þannig fái Ljósleiðarinn að handvelja sína meðeigendur og gagnrýnir að útboðið sé ekki opið, með möguleika á sölu til almennings. 

„Mín afstaða er sú, þegar þú ert með fyrirtæki sem er alfarið í eigu almennings, þá eigi það að vera almennt þannig að almenningur fái að kaupa hluti í sínu eigin fyrirtæki. Ekki nema rosalega veigamikil rök séu því að baki,“ segir Ragnhildur sem ítrekað hefur gert grein fyrir afstöðu sinni á stjórnarfundum Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem hún situr í stjórn sem fulltrúi borgarstjórnar. 

Í berhögg við markmiðið

Ragnhildur gagnrýnir einnig að í tillögu um útboðið segir að ferlið eigi að vera opið og gagnsætt og stefnt að dreifðu eignarhaldi. Þetta segir hún ganga „algjörlega í berhögg“ við markmið lokaðs útboðs, sem séu algjörlega í hina áttina. 

Til viðbótar kemur fram í tillögunni að helst eigi að selja hlutinn þeim sem er með almannahagsmuni í huga og segir Ragnhildur að með því sé augljóslega átt við lífeyrissjóðina, en í sömu setningu kaupendur með reynslu og þekkingu. 

„Það eru ekki lífeyrissjóðirnir, þeir eru akkúrat öfugt. Þeir eru almennt óvirkir og stór hluti þeirra er búinn að kaupa í Mílu. Þannig að ekkert af þessu fer saman, hvert einasta markmið er í mótsögn við hin markmiðin.“

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í maí að auka hlutafé Ljósleiðarans um …
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í maí að auka hlutafé Ljósleiðarans um 3.250 milljónir króna og bjóða hluthöfum til kaups. mbl.is/Árni Sæberg

Öflugur keppinautur 

Grundvallarsýn Ragnhildar er þó að allt eignarhald Orkuveitu Reykjavíkur á Ljósleiðaranum verði selt, þannig að Ljósleiðarinn geti orðið öflugur keppinautur Mílu á markaði. Úr þessu segir hún þó ljóst að svo verði ekki enda búið að gefa það út af hálfu borgarfulltrúa og meirihlutans að ekki eigi að selja fleiri hluti. 

„Þá er þetta orðið svolítið þröngt sniðinn stakkur með því að fara í lokað útboð, því þú ert með þennan þriðjungs hlut en samt engan möguleika á fleiri hlutum,“ segir Ragnhildur og bætir við að almenningur setji það ekki endilega fyrir sig en fjárfestar séu þó kröfuharðari og með ákveðnar kröfur um að geta selt sinn hlut eftir ákveðinn tíma. Fyrirkomulagið er þannig óheppilegra fyrir þá, segir hún. 

Kaupendur handvaldir

„Það sem stuðaði mig mest í þessu er er að maður þurfti að sitja undir ókvæðisorðum frá borgarfulltrúum meirihlutans í kosningabaráttunni í fyrra vor, þar sem ýmislegt var sagt um Sjálfstæðisflokkinn vegna sölunnar á Íslandsbanka. Svo núna þegar kemur að sölu sem þau stýra, þá setja þau sig ekkert upp á móti því að útboðið eigi að vera lokað og kaupendur handvaldir,“ segir Ragnhildur og bætir við: „Það er ljóst að það fylgir enginn hugur máli.“

Spurð hvers vegna hún telji að útboðið sé ekki opið almenningi segir hún það einfaldlega þannig að þegar fyrirtæki eru ekki á markaði þá sé einfaldara og ódýrara að selja til hæfra fjárfesta, enda stíft regluverk í kringum sölu til almennings. 

Stjórn Ljósleiðarans samþykkir endanlegt tilboð

Þá gagnrýnir Ragnhildur jafnframt að stjórn Ljósleiðarans hafi verið falið að samþykkja endanlegt kauptilboð og þannig handvelji hún meðeigendur. Hún segir borgarstjórn ekki hafa gert neinar athugasemdir við áform stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur um opið útboð, ekkert gert til að andmæla og stjórn Ljósleiðarans síðan gert að samþykkja tilboðið, án tilkomu eigenda fyrirtækisins.  

Sjálf hefði hún vilja sjá meiri umræðu um málið, enda um að ræða fyrirtæki í eigu almennings og þætti henni því eðlilegt að almenningur fengi að taka þátt í útboðinu. Þá hefði hún jafnframt vilja sjá að kosnir fulltrúar fengju að hafa eitthvað að segja um endanlegt tilboð, enda lýðræðislegra.

Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur, eiganda Ljósleiðarans ehf.
Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur, eiganda Ljósleiðarans ehf. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bókanir ekki verið birtar 

Ragnhildur segist þó hafa skilað inn bókunum í fundargerðum, bæði hjá borginni og Orkuveitunni, vegna sölunnar, þar sem hún lýsir yfir andstöðu sinni um að þessi leið hafi verið valin. Auk þess hafi hún kosið á móti tillögunni.

Fundarbókanir frá fundum Orkuveitunnar hafa þó ekki verið birtar vegna viðskiptahagsmuna líkt og Gylfi Magnús­son, stjórn­ar­formaður Orku­veitu Reykja­vík­ur, sagði í samtali við mbl.is

Sjálf segist hún ekki hafa skýringar á því hvers vegna bókanirnar hafi ekki verið birtar. Hún sér þó ekkert því til fyrirstöðu að þær verði birtar, nú þegar búið er að tilkynna um að fara eigi af stað með útboðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert