„Ein stærsta fjárfesting í sögu Reykjavíkurborgar“

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að um sé að ræða …
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að um sé að ræða einn stærsta viðskiptasamning í sögu Reykjavíkurborgar. Samsett mynd

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir flokkinn vilja að fyrirhugað útboð á hlutafé Ljósleiðarans ehf. verði almennt og að ekki verði af frekari fjárframlögum til fyrirtækisins frá Orkuveitunni.

Um sé að ræða einn stærsta viðskiptasamning borgarinnar og því verði að vanda til verka við útboðið, sér í lagi vegna slæmrar fjárhagsstöðu Ljósleiðarans ehf. 

25 milljarðar í fjarskiptarekstur

„Þetta er einn stærsti viðskiptasamningur í sögu Reykjavíkurborgar, ef ekki sá stærsti,“ segir Kjartan, sem sagði frá því í ræðu sinni á borgarstjórnarfundi í dag að á 24 ára tímabili hafi Orkuveita Reykjavíkur lagt rúma 25 milljarða króna í fjarskiparekstur á samkeppnismarkaði.

Þar að auki skuldi Ljósleiðarinn 21 milljarð króna og hafi Orkuveita Reykjavíkur því greitt rúman milljarð árlega með rekstrinum frá upphafi hans. 

„Í tuttugu ár, í hvert einasta skipti sem Orkuveitan hefur látið nýja fjárhæð inn í fyrirtækið er alltaf fullyrt að það þurfi ekki meira til, að þetta sé síðasta skiptið sem fyrirtækið þurfi pening. En fjárþörfin er viðvarandi og þessu til viðbótar, fyrir utan það sem Orkuveitan hefur lagt í þetta hefur fyrirtækið tekið lán upp á 21 milljarð króna samkvæmt uppgjörinu sem kom í ágúst,“ segir Kjartan. 

Þykir ólíklegt að öflugir fjárfestar fallist á þriðjung

Vegna skuldavanda fyrirtækisins segir Kjartan það vera jákvætt að nýir eigendur verði fengnir að Ljósleiðaranum með hlutafjárútboði, það verði að vera gert með það að leiðarljósi að sem hæst verð fáist fyrir þann hlut sem verður seldur. Til stendur að bjóða út þriðjungshlut fyrirtækisins sem Kjartan telur ekki vænlegt til árangurs. 

„Við teljum að það sé ekki mjög árennilegt fyrir fjárfesta sem eru að fjárfesta í þessum geira að fjárfesta í opinberu fyrirtæki þar sem verði boðið út nýtt hlutafé fyrir þriðjung af fyrirtækinu,“ segir Kjartan. 

„Mun líklegra er að hærri verð fáist með því að bjóða a.m.k. 51% hlut til sölu. Ólíklegt er að margir öflugir fjárfestar vilji kaupa þriðjungshlut í Ljósleiðaranum upp á þau skipti að ráðandi hlutur í fyrirtækinu verði alltaf í opinberri eigu.“

Góð söluvara þrátt fyrir rekstrarörðugleika

Loks segir Kjartan mikilvægt að rétt verði staðið að sölunni og þurfi borgarstjórn að marka skýra stefnu um að ekki verði gengið lengra í að fjármagna fjarskiparekstur með álögum á skattgreiðendur.

Þrátt fyrir rekstrarörðugleika sé Ljósleiðarinn góð söluvara og megi salan ekki vera sveipuð þeirri leynd sem ríkt hafi yfir henni til þessa. 

„Losa þarf borgina úr áhættusömum fjarskiparekstri sem fyrst. Ljósleiðarinn er öflugt fyrirtæki með gott starfsfólk og munu fjárfestar væntanlega sýna fyrirtækinu verðskuldaðan áhuga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert