Borgin eykur hlutafé og selur allt að þriðjung

Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð hafa samþykkt hlutafjáraukningu og sölu á …
Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð hafa samþykkt hlutafjáraukningu og sölu á allt að þriðjungi hlutafjár Ljósleiðarans. Ljósmynd/Ljósleiðarinn

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í gær að auka hlutafé Ljósleiðarans ehf. um 3.250 milljónir króna og bjóða nýjum hluthöfum til kaups.

Tekist var á um málið í borgarstjórn en það samþykkt með þrettán atkvæðum meirihlutans.

Allir eigendur samþykkt hlutafjáraukningu

Borgarbyggð samþykkti ákvörðun hluthafafundar fyrirtækisins þess efnis í nóvember á síðasta ári og Akraneskaupstaður sömuleiðis, 25. apríl síðastliðinn.

Sveitarfélögin þrjú eru endanlegir eigendur Ljósleiðarans í gegnum Orkuveitu Reykjavíkur. Samþykkt eigendanna þriggja er háð því skilyrði að eignarhlutur Orkuveitu Reykjavíkur í Ljósleiðaranum verði aldrei minni en tveir þriðju af heildarhlutafé fyrirtæksins.

Fjarskiptalandshringur nái einnig til Vestfjarða

Í fréttatilkynningu frá Ljósleiðaranum segir að markmið hlutafjáraukningarinnar sé að efla fyrirtækið á heildsölumarkaði fjarskipta til lengri tíma litið og nýta tækifæri sem núverandi uppbygging á nýjum öflugri fjarskiptalandshring Ljósleiðarans muni leiða af sér.

Ljósleiðarinn á og rekur ljósleiðaranet sem nær nú til um 125.000 heimila og fyrirtækja í landinu. Nýr fjarskiptalandshringur mun ná hringinn í kringum landið og til Vestfjarða.

Greiða niður skuldir

Borgarstjórn Reykjavíkur bindur samþykktina því skilyrði að andvirði nýs hlutafjár verði nýtt til að greiða niður skuldir fyrirtækisins og styrkja stöðu þess á samkeppnismarkaði. Þá leggur borgarstjórn Reykjavíkur til að samþykkt verði að heimild til hlutafjáraukningar falli niður í lok árs 2024 að því marki sem hún verður enn ónýtt.

Fyrirhuguð er verkaskipting milli stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og stjórnar Ljósleiðarans en Arion banki hefur verið ráðinn til ráðgjafar og umsjónar í ferlinu. Gert er ráð fyrir því að útgáfa nýs hlutafjár verði á ábyrgð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og að borgarráði verði kynnt áformin. Þá verði stjórn Ljósleiðarans veitt heimild til að ákvarða útboðsgengi og verð nýrra hluta sem og að ákvarða í hvaða áföngum heimildin verði nýtt.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK