Leiksýning sem við tökum ekki þátt í

Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins mbl.is/Arnþór Birkisson

Ragnhildi Öldu Vilhjálmsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, finnst illa farið með fé Reykvíkinga þegar kemur að fjármögnun Ljósleiðarans, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Á borgarráðsfundi í dag var samþykkt heimild til hækkunar hlutafjár Ljósleiðarans ehf.

Málefni Ljósleiðarans, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur (OR), voru rædd á borgarráðsfundi fyrr í morgun. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi barist fyrir því að borgarstjórn og stjórn Orkuveitunnar láti af samkeppnisrekstri á fjarskiptamarkaði.

Heimild til hækkunar samþykkt

Í tilkynningu Reykjavíkurborgar kemur fram að borgarráð hafi í dag samþykkt heimild til hækkunar hlutafjár Ljósleiðarans ehf. um allt að 3.250.000.000 að nafnverði, það er 33,33% af heildarhlutafé félagsins, eða þannig að eignarhlutur Orkuveitu Reykjavíkur í félaginu verði aldrei minni en 66,67% af heildarhlutafé Ljósleiðarans ehf. 

Orkuveitan áfram eigandi meirihluta

Þá kemur fram í tillögu borgarstjóra, sem borgarráð samþykkti í dag, að nýjar aðstæður á markaði eftir sölu Símans hf. á Mílu hf. hafi útheimt viðbrögð af hálfu Ljósleiðarans ehf. og endurnýjun á samningum við stærstu viðskiptavini fyrirtækisins.

Niðurstaða sviðsmyndagreiningar sé að aukið hlutafé félagsins sé æskilegt og allt að því óhjákvæmilegt við núverandi aðstæður og það sé í góðu samræmi við langtímamarkmið Reykjavíkurborgar að baki fjármögnun og rekstri Ljósleiðarans ehf.

Þar sem lagaleg áhætta hamli því að Orkuveita Reykjavíkur geti ein staðið fjárhagslega að baki hækkun hlutafjár þurfi að sækja aukið hlutafé á almennan markað. Orkuveita Reykjavíkur verði þó áfram eigandi meirihluta hlutafjár í Ljósleiðaranum ehf. 

Tillaga Sjálfstæðismanna felld 

Í bókun sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftir fundinn í dag kemur fram að þeir hafi nú enn á ný lagt það til að Ljósleiðarinn verði seldur í heild sinni. Til vara lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til nákvæmlega sömu tillögu og rýnihópur um hlutafjáraukningu í Ljósleiðaranum gerði upphaflega, en með ákveðnum skilyrðum sem taka allan vafa af því að tilgangur þessa hlutafjárútboðs sé ekki að liðka til fyrir frekari fjárveitingum frá OR á síðari stigum.

Í samtali við mbl.is segir Ragnhildur Alda að tillaga Sjálfstæðismanna um sölu Ljósleiðarans hafa verið felld á fundinum og því hafi þau lagt fram varatillögu til að sýna viðmót.

Tillögurnar tvær

Tillaga 1.
Borgarráð beinir því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur (OR) að selja allt hlutafé í Ljósleiðaranum ehf. Andvirði sölunnar verði notað til að lækka skuldir Orkuveitunnar. Skoðaðar verði mismunandi leiðir til að stuðla að því að OR fái sem mest fyrir hlut sinn í slíku söluferli, t.d. með beinni sölu eða hugsanlegri sameiningu við önnur fyrirtæki. Einnig má skoða hvort rétt sé að selja umrætt hlutafé í áföngum.

Tillaga 2.
Lagt er til að borgarráð samþykki heimild til hækkunar hlutafjár Ljósleiðarans ehf. um allt að kr. 4.333.333.333 að nafnverði og að heildarhlutafé félagsins verði allt að kr. 10.833.333.333 að nafnverði þannig að eignarhlutur Orkuveitu Reykjavíkur í félaginu verði um sinn ekki minni en 60% af heildarhlutafé Ljósleiðarans ehf. Jafnframt er sett það skilyrði að Orkuveita Reykjavíkur leggi Ljósleiðaranum ehf. hvorki til frekara hlutafé né lánsfé og að Orkuveita Reykjavíkur taki ekki þátt í umræddu hlutafjárútboði. Að lokum verði tryggt að andvirði selds hlutafjár dugi fyrir fyrirhugðum fjárfestingum félagsins svo ekki þurfi að koma til frekari lántöku hjá Ljósleiðaranum ehf. vegna þeirra.

„Að okkar mati er eina vitið að selja þetta fyrirtæki sem er í samkeppni á fjarskiptamarkaði. Þetta eignarhald á fyrirtækinu er fjötur um fót og það verður aldrei friður um það fyrr en það er selt.“

Illa farið með fé Reykvíkinga

Í bókuninni segir einnig að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins geti með engu móti fallist á áframhaldandi fjármögnun umsvifa Ljósleiðarans með skattfé eða fjármunum Orkuveitunnar.

Auk þess telja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að ekki sé hægt að ætlast til þess af eigendum að samþykkja hlutafjárútboð sem byggir á samningi við Sýn sem eigendur mega ekki sjá þótt ljóst sé að sá samningur hljóti alltaf að vera undir í áreiðanleikakönnun hugsanlega stórra kaupenda í Ljósleiðaranum.

Kaupi ekki miðann á þessa leiksýningu

Ragnhildur Alda segist hvorki tilbúin að taka þátt í þessu leikriti né samþykkja það að Orkuveitan sé að leggja alltaf meira og meira fé til Ljósleiðarans.

„Þetta er ekki það sem skattpeningar Reykvíkinga eiga að fara í, að vera í samkeppnisrekstri. Ég get ekki tekið þátt í því.“

Aðspurð að því hvers vegna málið sé borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins svona mikilvægt svarar Ragnhildur Alda því til að þegar fyrri breytingartillagan sem þau lögðu fram í dag var felld væri ljóst að þeirra mati að skilaboðin væru skýr.

„Hér er verið að búa til markaðsverð svo Orkuveitan geti lagt meira fé til Ljósleiðarans og við höfum séð þá leiksýningu, við vitum alveg hvernig þetta allt endar og við ætlum bara ekki að kaupa miða á þetta.“

Málið fer til endanlegrar afgreiðslu í borgarstjórn.

mbl.is