Óöldin í Svíþjóð mikið áhyggjuefni

AFP

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segist fylgjast mjög grannt með gangi mála í Svíþjóð en þar hefur mikil óöld ríkt að undanförnu.

„Það er mjög hryggilegt hvernig staðan er þar og auðvitað mikið áhyggjuefni,” segir Guðrún.

Guðrún Hafsteinsdóttir.
Guðrún Hafsteinsdóttir. mbl.is/María Matthíasdóttir

Spurð hvort ástandið hafi smitast á einhvern hátt til Íslands nefnir hún að á fundi allra dómsmálaráðherra Norðurlandanna í síðustu viku hérlendis hafi staðan í Svíþjóð verið mikið rædd. Einnig var skipulögð brotastarfsemi rædd, hryðjuverkaógn og fleira.

„Norrænu ríkin eiga í öflugu samstarfi og sömuleiðis lögreglurnar okkar. Við vinnum þétt saman og fylgjumst náið með stöðunni í Svíþjóð en það er mjög umhugsunarvert að þetta friðsæla ríki skuli vera komið á þann stað sem það er í dag,” segir dómsmálaráðherra.  

Hálfsjálfvirk- og sjálfvirk vopn ekki til Íslands

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun kynnti Guðrún frumvarp til laga um breytingu á vopnalögum. Frumvarpið var flutt á síðasta ári en náði ekki fram að ganga.

Hún segir að verið sé að gera ýmsar breytingar á frumvarpinu, meðal annars að leggja fram bann við innflutningi á hálfsjálfvirkum- og sjálfvirkum vopnum. Innflutningur á þeim hefur verið leyfður með undanþágu á grundvelli safnaraleyfis en núna er lagt til að sá innflutningur verði bannaður, að sögn Guðrúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert