Beygði sig niður sekúndubroti fyrir skotið

Þorgils Þorgilsson lögmaður ásamt sakborningnum í héraðsdómi í morgun.
Þorgils Þorgilsson lögmaður ásamt sakborningnum í héraðsdómi í morgun. mbl.is

Karlmaður á sjötugsaldri sem var að störfum á barnum á Dubliner þegar skotárás var þar gerð í mars segist hafa beygt sig niður sekúndubroti áður en skotinu var hleypt af.

„Mér brá rosalega við hvellinn. Ég hélt upphaflega að þetta væri stór tívolíbomba eða eitthvað," sagði maðurinn og bætti við að glerbrotum hefði rignt yfir sig. Aðalsjokkið hefði síðan komið síðar.

Hann sagðist hafa hringt í dóttur sína til að segja henni frá tívolíbombunni. Hún hefði þá gúgglað málið og sagt honum að þetta hefði verið haglabyssa. „Þá brá manni rosalega og maður gerði sér grein fyrir því hversu alvarlegt þetta hefði getað verið," sagði hann og bætti við að hann hefði verið stálheppinn að hafa beygt sig niður rétt áður en skotinu var hleypt af.

Frá héraðsdómi í morgun.
Frá héraðsdómi í morgun. mbl.is

„Ég vissi ekkert hvað hafði skeð og enginn sem sat við barinn," hélt hann áfram og sagðist ekki hafa séð manninn sem er ákærður fyrir verknaðinn, hvorki þegar hann gekk inn né fór út.

Spurður sagðist hann enn vakna upp á nóttunni við hvellinn sem hann heyrði og að málið kæmi upp í huga hans mörgum sinnum í viku. Hann kvaðst ekki hafa leitað sér aðstoðar vegna þess sem gerðist. „Nei, ég er svolítið old school".

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert