Enginn grundvöllur fyrir skrásetningargjaldi

Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema hefur fellt úr gildi úrskurð háskólaráðs …
Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema hefur fellt úr gildi úrskurð háskólaráðs um að hafna beiðni nemanda við Háskóla Íslands um endurgreiðslu skrásetningargjalds við skólann. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema hefur fellt úr gildi úrskurð háskólaráðs frá 3. nóvember 2022 um að hafna beiðni nemanda við Háskóla Íslands um endurgreiðslu skrásetningargjalds við skólann.

Hefur háskólanum þar með verið gert að endurgreiða nemandanum skrásetningargjald sem hann greiddi til skólans vegna skólaársins 2021-2022. 

Gjaldið úrskurðað ólögmætt

Í málinu, sem nemandi við skólann höfðaði á hendur Háskóla Íslands, er gerð krafa um endurgreiðslu hluta skrásetningargjalds sem kærandi hafi greitt til skólans „að því marki sem talið verður að gjaldið hafi verið ólögmætt og standist ekki lagaáskilnaðarreglu um þjónustugjöld,“ að er fram kemur í úrskurði áfrýjunarnefndar í kærumálum. 

Í úrskurðinum kemur fram að kærandi sé nemandi við HÍ sem hafi greitt skrásetningargjald að fjárhæð 75.000 króna til skólans vegna skólaársins 2021-2022. 

Í ágúst 2021 barst háskólaráði erindi frá kæranda þar sem þess var óskað að ráðið skæri úr um hvort skrásetningargjaldið hafi verið réttmætt og hvort innheimta þeirra rúmaðist innan ramma laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. 

Þá krafðist kærandi þess að gjaldið yrði endurgreitt að því marki sem það yrði talið ólögmætt, en í október á sama ári komst háskólaráð að þeirri niðurstöðu að gjaldtakan hafi verið lögmæt. 

Í kjölfarið kærði kærandi niðurstöðu háskólaráðs til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema sem felldi úrskurð háskólaráðs úr gildi. Í nóvember 2022 hafnaði háskólaráð beiðni kærandans að nýju og kærði kærandi úrskurð háskólaráðs til áfrýjunarnefndar á nýjan leik. 

Segir grundvallarmun á sköttum og þjónustugjaldi

Fram kemur í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar að í kærunni bendi kærandi á „þann grundvallarmun á sköttum og þjónustugjaldi. Í dag sé skráningargjald í HÍ 75.000 krónur óháð því hvaða þjónustu nemandinn raunverulega nýti sér af þeim kostnaðarliðum sem að baki gjaldinu búi samkvæmt reglum nr. 244/2014 um gjaldskrá Háskóla Íslands vegna þjónustu við nemendur o.fl., og innheimtu og ráðstöfun skráningargjalds... Hver og einn nemandi sem sæki skólann greiði því gjald óháð því hvort hann nýti þá þjónustu sem gjaldið eigi að standa undir.“

Þá segir einnig að kærandi leggi áherslu á að þegar íþyngjandi gjöld séu lögð á borgarana skuli beita þrengjandi lögskýringu um hvað falli undir þau gjöld.   

Ófullnægjandi grundvöllur fyrir innheimtu skrásetningargjalds

Í niðurstöðukafla úrskurðarins kemur fram að áfrýjunarnefndin telji það ekki fullnægjandi að byggja útreikning skrásetningargjaldsins á tilteknum hlutföllum af raunkostnaði nema ef fyrir liggi greining á því á hverju þau hlutföll byggi. 

Þá komi fram í svari Háskóla Íslands við fyrirspurn nefndarinnar að ekki sé haldið sérstaklega utan um kostnað nemenda eða starfsfólks í einstökum einingum og ef ekki sé hægt að aðgreina þann kostnað þurfi að liggja fyrir traust áætlun og greining á því á hverju sú áætlun byggi. 

„Með hliðsjón af framangreindu er það afstaða nefndarinnar að grundvöllur fyrir innheimtu skrásetningargjalds HÍ , eins og hann liggur fyrir í dag, sé ekki fullnægjandi og því óhjákvæmilegt að fella úr gildi ákvörðun háskólaráðs að því er varðar þessa töluliði,“ segir í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert