Landris hafið nærri Svartsengi

Miðja landrissins er nærri Bláa lóninu, um 1,5 km norðvestan …
Miðja landrissins er nærri Bláa lóninu, um 1,5 km norðvestan við Þorbjörn, en þetta er í fimmta sinn síðan árið 2020 sem landris mælist þar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landris nærri Svartsengi, norðvestan við Þorbjörn á Reykjanesskaga, virðist hafa hafist í gær en nýjustu gögn Veðurstofu Íslands benda til þess.  

„Nýjustu GPS gögn og InSAR mynd unnin úr gervitunglagögnum frá því síðdegis í gær sýna skýr merki um landris nærri Svartsengi,“ segir á vefsíðu Veðurstofunnar.

Þar segir að landrisið bendi til aukins þrýstings, líklegast vegna kvikuinnskots. Miðja landrissins er nærri Bláa lóninu, um 1,5 km norðvestan við Þorbjörn, en þetta er í fimmta sinn síðan árið 2020 sem landris mælist þar.

Landris hraðara en áður

„Fyrsta mat á hraða landrissins sem er í gangi núna er að það sé hraðara en áður. Að svo stöddu er ekki merki um að kvika færist nær yfirborði, aðstæður geta hins vegar breyst á skömmum tíma.

Sprunguhreyfingar vegna gikkskjálfta nærri og austan Svartsengis gætu mögulega gert kvikunni kleift að færast grynnra í skorpunni,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Margþætt ferli kvikuhreyfinga í jarðskorpunni hafa áhrif á stóru svæði á Reykjanesskaga. Þensla heldur áfram við Fagradalsfjall en aflögun virðist hafa stöðvast við Festarfjall. Nú síðasta sólarhring sýna gögnin landris nærri Svartsengi.

Skjálftarnir fleiri en 7.000

Fleiri en 7.000 skjálftar hafa mælst frá því að skjálftahrina hófst norðan við Grindavík 25. október.

Yfir 7.000 jarðskjálftar hafa mælst í jarðskjálftahrinu sem hófst 25. október norðan við Grindavík. Hrinan stendur enn yfir þótt dregið hafi úr virkninni. Enn er líkur á að jarðskjálftar finnist á svæðinu.

„Líkanareikningar verða gerðir í dag til að reyna að áætla dýpi og stærð innskotsins norðvestan við Þorbjörn,“ segir jafnframt á vef Veðurstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert