Stórmál ef hitaveitan fer

Horft yfir orkuverið í Svartsengi.
Horft yfir orkuverið í Svartsengi. mbl.is/Hákon

„Þetta var ekki eini stjóri skjálftinn sem hefur verið síðustu vikur. Það hafa verið nokkuð margir og auðvitað er þetta ekki þægilegt þegar þetta kemur, en það urðu engar skemmdir, það var bara verulegur þrýstingur.“

Þetta segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS orku, spurður út jarðskjálftann sem varð laust eftir hádegi í gær á Reykjanesskaga og mældist 4,5 að stærð.

Fannst skjálft­inn víða, meðal ann­ars á höfuðborg­ar­svæðinu.

Upp­tök skjálft­ans voru við Sýl­inga­fell, um þrjá kíló­metra aust­ur af Bláa lón­inu og því enn nær orku­ver­inu í Svartsengi, sem einnig er aust­ur af lón­inu.

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS orku, segir fyrirtækið vera í …
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS orku, segir fyrirtækið vera í góðu sambandi við almannavarnir vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gætu þurft að verja virkjunina

Tómas segir að fylgst sé vel með stöðu mála enda sé fyrirtækið í góðu sambandi við almannavarnir.

„Við erum með okkar viðbragðsáætlanir miðað við mismunandi sviðsmyndir. Samt má alveg minna á að þetta var svona líka árið 2020, þá var kvikuinnskot á okkar svæði en eldgosið braust út á öðrum stað. Þannig að við höldum ró okkar og fylgjumst bara vel með.”

Inntur eftir því hvað fyrirtækið geti gert til að verja mannvirki sín ef eldgos hefst nærri orkuverinu segir Tómas að í raun sé ekki hægt að gera neitt annað en vera viðbúinn og sjá fyrir sér mismunandi lausnir.

„Auðvitað gæti komið að því að við þyrftum í einhverjum tilfellum að bæði vernda mannvirki og holur og náttúrulega fyrst og fremst virkjunina í Svartsengi, sem við höfum kannski mestar áhyggjur af. Þá þyrfti bara í samstarfi við almannavarnir og yfirvöld að gera viðeigandi ráðstafanir og reyna að verja þessi mannvirki, þá með varnargörðum eða öðru.“

Þá segir hann það fyrsta sem hann hafi áhyggjur af sé öryggi fólks og því sé hugsað um það númer eitt, tvö og þrjú. Einnig þurfi fyrirtækið að skaffa mikilvæga innviði og því séu viðbragðsáætlanirnar miðaðar við mismunandi sviðsmyndir sem geti komið upp.

Ekkert sveitarfélag með varahitaveitu

En hvaða áhrif skyldi það hafa fyrir samfélagið á Suðurnesjum ef orkuverið í Svartsengi myndi hætta að framleiða rafmagn og heitt vatn?

„Ef við missum rafmagn er það ekki stór skaði því við höfum Reykjanesvirkjun og Suðurnesjalínu 1, en ef hitaveitan fer þá er náttúrulega dálítið mikið mál að koma upp annarri hitaveitu og það er ekkert sveitarfélag með varahitaveitu. Þá þyrftum við að bregðast við eftir því hversu alvarlegt það er og það gæti tekið tíma,“ segir hann.

Spurður að lokum hvað þyrfti að gerast svo farið yrði í rýmingu segir Tómas aðallega tvennt þurfa að koma til.

„Þá þyrftum við væntanlega að vera með eldgos mjög nálægt okkur eða ef jarðskjálftar valda stórskaða. En byggingarnar okkar hafa staðið af sér mikla skjálfta í þrjú og hálft ár þannig að við höfum sýnt það að þær þola það. Það hafa ekki orðið neinar verulegar skemmdir á okkar mannvirkjum á þeim tíma.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert