Gætu þurft að takmarka orkunotkun ef gýs

Víðir Reyn­is­son, yf­ir­lög­regluþjónn al­manna­varna­deild­ar, Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri framleiðslu hjá HS …
Víðir Reyn­is­son, yf­ir­lög­regluþjónn al­manna­varna­deild­ar, Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri framleiðslu hjá HS Orku, og Páll Erland, forstjóri HS Veitna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hugsanlega þarf að takmarka raforkunotkun ef sú allra svartasta mynd af eldgosi á svæðinu í kringum Svartsengi verður að raun. Rafmagnsdreifikerfi HS Veitna er ekki hugsað til rafkyndingar. 

Þetta sagði, Páll Erland, forstjóri HS Veitna, í kvöld á upp­lýs­inga­fundi vegna jarðhrær­ing­anna á Reykja­nesskaga en fund­ur­inn er hald­inn á veg­um al­manna­varna­nefnd­ar Suður­nesja, utan Grinda­vík­ur.

Rafbílar ekki í hleðslu heima

„Ef það kemur svona ástand á ekki að hlaða rafbíla heima,“ sagði Páll en bætti við að einhverjar hleðslustöðvar yrðu í boði á svæðinu.

Hann lagði áherslu á að íbúar á Reykjanesskaganum þyrftu að huga að því hversu mikla rafkyndingu þeir myndu að nota en einnig orkusparnaði á heimilinu almennt.

2,5 kW til rafkyndingar á hverja íbúð

„Í þessari svörtustu sviðsmynd sem við erum með verður aldrei mikilvægara að spara orkuna eins og hægt er,“ sagði Páll. „Ef þú ert með þurrkarann í gangi ekki vera að elda á spanhellum á sama tíma.“

Páll sýndi einnig álagsgreiningu á rafmagnskerfi HS Veitna ef íbúar notast við rafkyndingu og samkvæmt útreikningum yrði mikilvægt að raforkunotkun til rafkyndingar á heimilum færi ekki yfir 2,5 kW á hverja íbúð.

Páll nefndi einnig að samkvæmt viðbragðsáætlun þyrfti að koma fyrir neyðarvatnsbóli Árnarétt fyrir kalt vatn, þar sem þegar er vatnsverndarsvæði með mikið af hreinu vatni, sem myndi duga fyrir alla almenna notkun, en vatnsnotkun stærri fyrirtækja yrði skert – heimilin væru í forgangi.

Sigurður Ingi Jóhansson innviðaráðherra var meðal þeirra 260 gesta sem …
Sigurður Ingi Jóhansson innviðaráðherra var meðal þeirra 260 gesta sem sóttu fundinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Erfitt að finna lausn sem dugar

Hvað heita vatnið varðar á enn eftir að finna góða lausn á því. Benti hann á að notkun fjölskyldna og atvinnulífsins á Reykjanesskaga nemi 25 mW, en heitt vatn sem notað er til þess að kynda byggingar á skaganum nemi um 150 mW. Því yrði það afar slæmt ef heitavatnslaust yrði á Reykjanesskaga sökum eldgoss.

Þá sagði Páll að margar tillögur hefðu verið skoðaðar en að það sé „erfitt að finna nokkra lausn sem dugar“. Ein þeirra tillagna er svokölluð neyðarkyndistöð sem myndi byggjast á mörgum olíuknúnum einingum, en enn er unnið að því að finna lausn fyrir heimili.

Hvað varðar húsveitur (raflagnir, hitalagnir og vatnslagnir) sagði Páll það mikilvægt að allir geri það sem hægt er til þess að lágmarka tjón. Þá ítrekaði hann að tjón húseigenda sé ekki á ábyrgð HS Veitna.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra flutti einnig ræðu á fundinum.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra flutti einnig ræðu á fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert