Heitavatnskerfin í fullri virkni

Garður í Suðurnesjabæ. Heitavatnskerfin eru í fullri virkni í Reykjanesbæ …
Garður í Suðurnesjabæ. Heitavatnskerfin eru í fullri virkni í Reykjanesbæ og á öðrum þéttbýlisstöðum. mbl.is/Sigurður Bogi

Páll Erland, forstjóri HS Veitna, segir ástandið á kerfum fyrirtækisins ótrúlega góða miðað við náttúruhamfarirnar sem standa nú yfir. „Enda hefur mannskapurinn okkar staðið sig eins og hetjur við erfiðar aðstæður,“ bætir hann við.

Heitavatnskerfin eru í fullri virkni í Reykjanesbæ og á öðrum þéttbýlisstöðum eins og staðan er núna.

Hafa fengið undanþágur

„Eins og við best vitum núna er heitt vatn á öllum Suðurnesjunum. Og rafmagn og kalt vatn nema á einstaka stöðum í Grindavík. Það mál verður skoðað um leið og aðstæður leyfa.“

Megið þið vera með starfsmenn í Grindavík núna?

„Ekki eins og staðan er núna. En við höfum fengið undanþágu til þess að fara með starfsmenn og vinna í kerfunum og erum búin að vera að gera það síðastliðinn sólarhring.“

Óhjákvæmilegt

HS Veitur upplýstu um það á Facebook fyrr í dag að það hefði borið á gruggugu heitu vatni hjá íbúum í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. 

„Þetta eru óhjákvæmilegar afleiðingar við þessar svakalegu jarðhræringar. Það er í rauninni ekkert sem þarf að óttast,“ segir Páll og tekur fram að heita vatnið sé ekki drykkjarvatn.

Spurður um orsakir þess að heitavatnið sé gruggugt, og hvort eitthvað bendi til þess að lagnir hafi mögulega farið í sundur segir Páll:

„Þetta eru frekar einhvers konar áhrif úr lögnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert