Fær ekki bætur eftir aðgerðir lögreglu í eftirför

Lögreglan ákvað að keyra jeppa mannsins út af Þjórsárdalsvegi í …
Lögreglan ákvað að keyra jeppa mannsins út af Þjórsárdalsvegi í maí árið 2018, en hann hafði þá valdið hættu með aksturslagi sínu og var auk þess ölvaður. Maðurinn slasaðist mikið þegar bifreið hans valt eftir aðgerð lögreglunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tryggingafélag lögreglunnar á Suðurlandi hefur verið sýknað af kröfum karlmanns um bætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í maí 2018 þegar lögreglubifreið var ekið aftan á bifreið mannsins með þeim afleiðingum að hún lenti utan vegar. Maðurinn hálsbrotnaði, en bifreiðin fór eina veltu áður en hún stöðvaðist.

Áður hefur maðurinn verið sakfelldur fyrir athæfi sitt þegar hann keyrði bifreiðinni, en hann var talinn hafa raskað umferðaröryggi á alfaraleið og stofnað lífi lögreglumanna í hættu. Þá hafði jafnframt lögreglumaðurinn sem keyrði á bifreið hans verið sýknaður í öðru máli sem embætti héraðssaksóknara höfðaði gegn lögreglumanninum.

Réðst á heimili sitt með skurðgröfu meðan fjölskyldan var inni

Lögreglan hóf afskipti sín af manninum þennan dag eftir að hafa borist tilkynningu um að maðurinn hafi gengið berserksgang og ráðist á heimili sitt með skurðgröfu, en kona hans og börn voru inn á heimilinu. Fór hann svo af vettvangi á jeppa, en því fylgdi sögunni að hann væri ölvaður. Síðar meir staðfesti blóðprufa að hann hafi verið með 1,72 prómill áfengis í blóðinu.

Lögreglan mætti manninum á Skálholtsvegi, en þar mældist hann á 114 km/klst hraða þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Hófst í kjölfarið eftirför og segir í skýrslu lögreglu að maðurinn hafi rásað mikið, en verið að mestu innan marka um hámarkshraða.

Reyndi að aka utan í lögreglubifreið

Á Skálholtsvegi norðan við Ósabakka var ákveðið að reyna að stöðva aksturs hans með því að loka hann inni milli tveggja lögreglubifreiða. Var reynt að aka annarri lögreglubifreiðinni fram úr honum, en þegar sú bifreið var komin upp að vinstri hlið jeppans reyndi ökumaðurinn að aka utan í lögreglubifreiðina. Neyddist ökumaður lögreglubifreiðarinnar því til að aka út af veginum, en komst stuttu síðar aftur upp á veginn.

Á þessum tíma missti ökumaðurinn einnig stjórn á jeppanum og ók út af veginum en komst upp á hann aftur og hélt akstrinum áfram.

Talsvert um aðvífandi umferð

Eftirförin átti sér stað á sjöunda tímanum um kvöld og var samkvæmt lögregluskýrslu talsvert um aðvífandi umferð. Taldi lögreglan að hætta væri til staðar fyrir aðra ökumenn, en maðurinn keyrði talsvert á öfugum vegarhelmingi.

Hann beygði inn á Skeiða- og Hrunamannaveg og svo inn á Þjórsárdalsveg og reyndi lögreglan ítrekað að ná sambandi við hann með kallkerfi lögreglubifreiðarinnar án árangurs. Við Árnes í Þjórsárdal var ákveðið að skipta um ökumann í annarri lögreglubifreiðinni og átti nýr ökumaður að freista þess að stöðva för mannsins með að aka utan í afturenda bifreiðarinnar.

Var fjarskiptamiðstöð lögreglunnar meðal annars upplýst um þetta.

Brot á hálslið og stórt sár inn að höfuðkúpu

Fyrst átti þó að reyna að komast fram úr manninum, en þegar lögreglan nálgaðist færði hann sig á öfugan vegarhelming og var ljóst að hann ætlaði ekki að hleypa lögreglunni fram úr. Það var því um klukkan sjö um kvöldið sem lögreglan ók utan í afturenda jeppans þannig að hann missti stjórn á bifreiðinni þannig að hún valt einn hring og lenti á hjólunum um 20 metrum norðan vegarins.

Maðurinn var með fulla meðvitund þegar lögregla kom að honum, en svaraði ekki óvarpi. Var hann fluttur með þyrlu til Reykjavíkur, en fram kom í fyrra dómsmáli að hann hafi hlotið brot á hálslið og 10 cm langt sár á hnakka sem var opið inn að höfuðkúpu.

Ber ábyrgð á akstri sínum og afleiðingum

Maðurinn krafðist þess fyrir dómi að viðurkennd yrði full og óskipt bótaábyrgð tryggingafélagsins Varðar, sem tryggði lögreglubifreiðina, á því líkamstjóni sem hann hafði orðið fyrir þegar ekið var aftan á hann. Til vara var farið fram á bótaábyrgð ríkisins í kjölfar aðgerða lögreglunnar.

Bæði héraðsdómur og Landsréttur höfnuðu þessu hins vegar meðal annars með vísun í fyrri dóma sem tengdust akstri mannsins og sýknu lögreglumannsins. Þá sagði í dómi Landsréttar að með vísan til þeirrar hættu sem almenningi stóð af háttsemi mannsins væri talið að ekki væru til staðar viðurhlutaminni úrræði til að stöðva för mannsins. Því var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að maðurinn bæri sjálfur ábyrgð á akstri sínum sem leiddi til líkamstjóns hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert