„Vitum ekkert hvenær kvikuhólfið við Svartsengi gefur sig“

Benedikt segir að skjálftavirknin fari smám saman minnkandi.
Benedikt segir að skjálftavirknin fari smám saman minnkandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga hjá Veður­stofu Íslands, segir ekki miklar líkur á að það gjósi í Grindavík úr þessu.

Landið við Svartsengis­virkj­un­ina hef­ur nú risið hærra en það var áður en skjálfta­hrin­an hófst 25. októ­ber, sem náði há­marki með mynd­un kviku­gangs­ins 10. nóv­em­ber þegar kvikuhlaup inn í Sundhnúkagígarðina olli þá gríðar­miklu og hröðu land­sigi og gliðnun.

Hvað segir þetta okkur?

Benedikt Gunnar Ófeigsson.
Benedikt Gunnar Ófeigsson. mbl.is/Eyþór

„Menn horfa á eina stöð sem er Svartsengi og landrisið þar er orðið hærra en það var fyrir, en þetta á ekki við um allar stöðvarnar. Í þessu landrisi erum við að sjá áhrif af kvikuganginum. Það sem við erum að horfa á er talsvert hratt kvikuflæði inn í sömu kvikusyllu eins og fyrir 10. nóvember,“ segir Benedikt.

Hefur þessi kvikusylla eitthvað breitt úr sér eftir jarðhræringarnar og að kvikusöfnunin sé á stærra svæði en áður?

„Nei hún virðist vera á mjög svipuðum stað og við erum ekki að sjá nein merki um að hún hafi breitt úr og það er ekki merkjanlegur munur á kvikusöfnuninni. Hún er á svipuðu svæði. Hún er að öllum líkindum að flæða inn í sama geymi og var að taka við fyrir,“ segir Benedikt.

Minnkandi líkur á gosi úr kvikunni í sigdalnum

Spurður um líkur á hugsanlegu eldgosi í ljósi stöðunnar í dag segir Benedikt:

„Það eru smá saman minnkandi líkur á gosi úr þessari kviku í sigdalnum. Núna erum við nánast hætt að sjá merki um að það sé neitt að flæða inn í hann og þá er voða lítið eftir annað en að þetta storkni og geri ekki mikið meira. En við erum enn að sjá jarðveg fara ofan í sprungur sem mynduðust og það er eitthvað sem heldur áfram. Líkur á að það komi gos úr þessu eru ekki miklar en við vitum ekkert hvenær kvikuhólfið við Svartsengi gefur sig og fer í næsta kvikuhlaup. Það er mjög erfitt að segja til um það,“ segir Benedikt.

Benedikt segir að skjálftavirknin fari smám saman minnkandi en það megi búast við því að það verði skjálftavirkni í ganginum árum saman.

„Það var til dæmis raunin í Holuhrauni. Það var árum saman skjálftavirkni yfir ganginum sem myndaðist þar þótt engin kvika væri á ferðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert