„Ósannindi og árásir á mannorð Ragnars“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á umræddum mótmælafundi sl. fimmtudag.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á umræddum mótmælafundi sl. fimmtudag. mbl.is/Eyþór

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og níu aðrir stjórnarmenn félagsins fordæma ummæli sem Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, hefur látið falla um framgöngu Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, í liðinni viku. 

Fram kemur í yfirlýsingu á vef Eflingar, að umræddir stjórnarmenn félagsins hafi verið viðstödd mótmæli sem fóru fram í höfuðstöðvum Gildis 30. nóvember. 

Fram kom í Morgunblaðinu í dag, að Gildi líf­eyr­is­sjóður hefði sent stjórn VR form­lega kvört­un vegna fram­göngu og hegðunar Ragn­ars Þórs gagn­vart stjórn­end­um og al­mennu starfs­fólki líf­eyr­is­sjóðsins í kjöl­far mót­mælanna.

Mark­mið mót­mæl­anna var að þrýsta á líf­eyr­is­sjóðina um að koma bet­ur til móts við Grind­vík­inga.

Segja ekkert hæft í ásökununum

„Við undirrituð, stjórnarmenn í Eflingu stéttarfélagi sem vorum viðstödd mótmæli í höfuðstöðvum Gildis þann 30. nóvember, fordæmum rógburð, ósannindi og árásir á mannorð Ragnars Þórs Ingólfssonar af hálfu yfirmanna skrifstofu Gildis lífeyrissjóðs.

Nákvæmlega ekkert er hæft í þeim alvarlegu ásökunum sem Árni Guðmundsson framkvæmdastjóri og Bjarney Sigurðardóttir skrifstofustjóri Gildis setja fram í bréfi sínu til stjórnar VR í gær 4. desember. Í bréfinu er því haldið fram að á friðsamlegum mótmælum 30. nóvember hafi starfsfólki Gildis verið „ógnað á vinnustaðnum“, það orðið fyrir „andlegu ofbeldi“ og „[lokast] inn í rými með ógnandi aðila“,“ segir í tilkynningu Eflingar. 

„Fjarstæðukenndur uppspuni“

Þau segja enn fremur að þessa lýsingar sjóðsins væru „fjarstæðukenndur uppspuni eins og tugir einstaklinga sem voru viðstödd mótmælin eru til vitnis um.“

„Við fordæmum með öllu þá ákvörðun Árna Guðmundssonar framkvæmdastjóra og Bjarneyjar Sigurðardóttur skrifstofustjóra Gildis að ráðast með ósannindum að okkur sem tókum þátt í friðsamlegum mótmælum í höfuðstöðvum sjóðsins þann 30. nóvember. Lúalegar árásir þeirra á Ragnar Þór Ingólfsson eru um leið árás á okkur, á sjóðfélaga frá Grindavík og aðra þá sem tóku þátt í umræddum mótmælum,“ segir jafnframt í yfirlýsingu Eflingar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert