Skoða aukið öryggi fyrir æðstu ráðamenn

Bjarni átti að flytja loka­ávarp á fund­in­um, sem var síðan …
Bjarni átti að flytja loka­ávarp á fund­in­um, sem var síðan aflýst í kjölfar glimmerkastsins. Ljósmynd/Aðsend

Karl Steinar Valsson, yf­ir­lög­regluþjónn alþjóðasviðs rík­is­lög­reglu­stjóra, segir að mótmælendurnir sem skvettu glimmeri yfir Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra á ráðstefnu í dag hafi gengið of langt. Lögreglan skoðar nú hvort auka eigi öryggisráðstafanir í kringum æðstu ráðamenn í landinu. 

Bjarni átti að flytja loka­ávarp á hátíðarfund­i sem var hald­inn í Veröld, húsi Vigdísar, í til­efni af 75 ára af­mæli mann­rétt­inda­yf­ir­lýs­ing­ar Sam­einuðu þjóðanna. Fundinum var þó aflýst í kjölfar þess að mótmælendur skvettu rauðu glimmeri á utanríkisráðherrann í því skyni að mótmæla framgöngu Íslands í tengslum við stríðið á Gasasvæðinu.

„Við höfum að undanförnu verið að fara yfir þessi öryggismál,“ segir Karl Steinar í samtali við mbl.is sem segir að nú sé enn fremur tilefni til þess að auka öryggi en bendir aftur á móti á að engar ákvarðanir hafi verið teknar.

Glimmerkastið „á engan veginn viðeigandi“

„Við búum í frekar friðsælu umhverfi,“ segir Karl og bendir á að í flestum löndum séu æðstu ráðamenn með talsvert mikla gæslu í kringum sig. „Hingað til hafa menn ekki talið ástæðu til þess að vera með það [á Íslandi].“

„Þetta er bara í skoðun eftir þá atburðarás sem við sáum þarna. Þetta er náttúrulega engan veginn viðeigandi,“ bætir hann við.

Karl Steinar Valsson.
Karl Steinar Valsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Of langt gengið

Aðspurður segir Karl að of langt hafi verið gengið þegar glimmeri var kastað yfir utanríkisráðherra.

„Við viljum að sjálfsögðu finna flöt á því að fólk geti tjáð skoðanir sínar og haft friðsamleg mótmæli. En við þurfum auðvitað að velta því fyrir okkur hvernig við túlkum það – hvernig virðum við líka frelsi annarra sem eru í kringum okkur?,“ segir hann.

Hann nefnir að hingað til hafi íslenskir ráðamenn almennt getað sinnt sínum störfum án þess að þörf væri á mikilli löggæslu í kringum þá. „Vonandi er það nú ekki það sem við förum að sjá.“

Bjarni var þakin rauðum lit.
Bjarni var þakin rauðum lit. Ljósmynd/Aðsend

Stormasöm tíð Bjarna í utanríkisráðuneytinu

Efnt hefur verið til margra mótmæla hér á landi í tengslum við stríðið á Gasaströndinni. Mótmælin hafa oftast verið við ráðherrabústaðinn eða utanríkisráðuneytið.

Bjarni tók við embætti utanríkisráðherra aðeins viku eftir að stríðið hófst. Þá skipti hann um embætti við Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, núverandi fjármálaráðherra, í kjölfarið á afsögn sinni sem fjármálaráðherra.

Sá stutti tími sem Bjarni hefur setið í ráðuneytinu hefur verið stormasamur. Sem dæmi má nefna afstöðu Íslands á alls­herj­arþingi Sam­einuðu þjóðanna um að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um vopna­hlé á Gasa­svæðinu, sem var afar umdeild á sínum tíma.

Einnig vakti það athygli í byrjun nóvember þegar norskur blaðamaður spurði Bjarna út í mann­skæða loft­árás Ísra­els­hers á flótta­manna­búðir í Jabaliya á Gasa­svæðið. Utanríkisráðherrann virt­ist þá ekki til­bú­inn til að samþykkja full­yrðingu blaðamanns­ins um að árás hefði verið gerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert