Vilja ekki sjá Ísland breytast í þessa átt

Lilja, Guðlaugur Þór og Bjarni með rauða glimmerið á samsettri …
Lilja, Guðlaugur Þór og Bjarni með rauða glimmerið á samsettri mynd. Samsett mynd

Ráðherrarnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Lilja Alfreðsdóttir vonast báðir til þess að ekki þurfi að koma til aukinnar öryggisgæslu í kringum ráðherra á opinberum vettvangi.

Stutt er síðan mótmælendur skvettu rauðu glimmeri á Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra á hátíðarfundi í Veröld - húsi Vigdísar.

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, sagði við mbl.is á dögunum að mótmælendurnir hefðu gengið of langt og að lögreglan skoði hvort auka skuli öryggisráðstafanir í kringum æðstu ráðamenn landsins.

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alvarlegt og sló mig mjög 

„Það er svo margt gott við að búa á Íslandi. Eitt af því er það að við þurfum ekki á slíku [aukinni öryggisgæslu] að halda. Þegar ég sá þetta þá sló það mig mjög og mér finnst þetta gríðarlega alvarlegt. Ég vona að sá dagur líði ekki að við þurfum að hafa sambærilega öryggisgæslu og í þeim löndum sem við berum okkur saman við,” segir Guðlaugur Þór, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sem ræddi við blaðamann um málið að loknum ríkisstjórnarfundi.

Hann segir það gott bæði fyrir stjórnmálamenn í landinu og almenning að enginn þurfi að hafa áhyggjur af öryggi sínu, vegna þess að margir kostir fylgi því.

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þessi uppákoma var mjög alvarleg. Sömuleiðis er það ekki boðlegt að einhver þurfi að útskýra fyrir börnunum sínum svona hluti. Ég vonast til þess að við sjáum þetta aldrei aftur,” greinir Guðlaugur Þór frá.

„Það er fullkomlega eðlilegt að mótmæla og það er fullkomlega eðlilegt að láta í sér heyra og ég mun alltaf standa vörð um tjáningarfrelsið en þetta er allt annað.”

Milliliðalaust samband dýrmætt

Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, vonast til þess að ekki þurfi að auka öryggisgæsluna en áréttar sömuleiðis að atvikið hafi verið mjög alvarlegt.

Lilja Alfreðsdóttir.
Lilja Alfreðsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það jákvæða við íslensk stjórnmál er þetta milliliðalausa samband sem við getum átt við kjósendur og fólkið í landinu. Ég segi fyrir mitt leyti að það er mér alveg gríðarlega dýrmætt,” svarar Lilja, spurð út í málið að loknum ríkisstjórnarfundi.

Myndi grafa undan trausti

„Það myndi grafa verulega undan trausti ef við þyrftum að fara í svoleiðis öryggisráðstafanir hér gagnvart ráðherrum, stjórnmálafólki og fólki sem er áberandi,” segir hún og telur að almennt séð hafi atvikið ekki mælst vel fyrir, enda mikilvægt fyrir ráðamenn að vera í beinum samskiptum við fólk.

„Það sama á við um samskipti við fjölmiðla. Að við þyrftum að vera alltaf með mikinn fyrirvara og gætum ekki tjáð okkur með þessum hætti. Ég vil ekki sjá Ísland breytast í þessa átt.”

Fannst þér mótmælendurnir ganga of langt?

Já, þetta var árás á ráðherrann og ekki til þess fallið að búa til og auka traust og samtal til þess að taka skynsamleg næstu skref,” segir Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert