Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segir þátttöku Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, ekkert hafa með pólitíska afstöðu að gera. Fleiri en 3000 manns hafa skrifað undir undirskriftalista sem skorar á Ríkisútvarpið að neita þátttöku Íslands verið Ísrael ekki vísað úr keppninni.
„Þrátt fyrir þjóðarmorð Ísraels á hendur Palestínu er Ísrael þátttakandi í Eurovision í ár,“ segir í lýsingu undirskriftalistans.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins sagði Stefán að Ísland hafi tekið þátt í keppninni síðan árið 1986 og muni halda því áfram að óbreyttu. Sagði hann að vel hafi verið farið yfir stöðuna og að RÚV hafi komið áleiðis áhyggjum af öryggismálum við Samband evrópskra sjónvarpsstöðva.
Þess má geta að Rússlandi var vísað úr keppninni í kjölfar innrásar þeirra í Úkraínu. Til stóð að leyfa Rússum að taka þátt að óbreyttu árið 2022. Var þeim þó að lokum hent úr keppninni eftir að Finnar hótuðu að draga þátttöku sína til baka vegna ákvörðunarinnar.
Tilkynntu fleiri forsvarsmenn norrænna sjónvarpsstöðva, þar á meðal Stefán, að þau hygðust einnig draga þátttöku sína til baka fengi Rússland að taka þátt.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins ræddi einnig við tónlistarkonuna Lóu Hjálmtýsdóttur í kvöldfréttum. Hún sagði, þvert á orð Stefáns, að það væri pólitískt að taka ekki afstöðu.
„Ef þú situr alltaf hjá þá hagnast alltaf gerendur í málunum.“