Lykilvitni í málinu látið

Aðalmeðferð í Ólafsfjarðarmálinu svokallaða hefst fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra í …
Aðalmeðferð í Ólafsfjarðarmálinu svokallaða hefst fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra í dag. Eyþór Þorbergsson aðstoðarsaksóknari rekur málið fyrir embætti héraðssaksóknara. Samsett mynd

Aðalmeðferð í Ólafsfjarðarmálinu hefst fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra á Akureyri í dag. Steinþór Einarsson er ákærður fyrir að hafa orðið Tómasi Waagfjörð að bana aðfaranótt mánudagsins 3. október 2023. 

Lykilvitnið í málinu, ekkja Tómasar, er látin. Lést hún nú í október sem leið en hún glímdi við alvarlegan vanda. Óljóst er hversu mikil áhrif andlát hennar mun hafa á málið en Steinþór ber fyrir sig neyðarvörn í málinu.

Ekkja Tómasar hafði verið grunuð um að hafa stungið Tómas með eggvopni í mars á síðasta ári. Þá var lögreglan á Norðurlandi eystra einnig með nokkur mál til rannsóknar þar sem talið er að hjónin hafi átt í átökum sín á milli.

Aðalmeðferð hefst fyrir héraðsdómi klukkan 9.15 en í dag verður einnig farið í könnunarferð til Ólafsfjarðar. Málið var sviðsett með aðstoð ákærða á Ólafsfirði í nóvember á síðasta ári.

Látinn laus rúmum mánuði eftir atvikið 

Lögregla var kölluð til aðfaranótt mánudagsins 3. október á síðasta ári eftir að tilkynning barst um að karlmaður hafi verið stunginn með eggvopni. Var maðurinn, Tómas Waagfjörð, úrskurðaður látinn á staðnum eftir að endurlífgunartilraunir báru ekki árangur. 

Fjórir voru fyrst úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins. Þrír voru síðar látnir lausir og lögregla rannsakaði málið. 7. nóvember, eftir rúmlega mánaðar gæsluvarðhald, var hinum grunaða, Steinþóri Einarssyni, svo sleppt úr gæsluvarðhaldi. 

Í júlí á þessu ári, sjö mánuðum eftir atvikið lauk rannsókn lögreglu. 24. ágúst var svo gefin út ákæra í málinu og Steinþór ákærður fyrir manndráp. Steinþór neitar sök í málinu og sem fyrr segir, ber fyrir sig neyðarvörn.

Ber fyrir sig neyðarvörn

Segir í ákærunni að Steinþór hafi svipt Tómas lífi með því að stinga hann tvisvar sinnum í vinstri síðu með hnífi. Missti Tómas mikið blóð og lést. 

Í greinargerð varnaraðila segir hins vegar að Tómas hafi ráðist að Steinþóri með hníf og reynt að drepa hann. Fyrst hafi Tómas stungið Steinþór í kinnina og síðar í lærið. Þegar Steinþór reyndi að verja sig hafi Tómas fallið á hnífinn og hlotið þær stungur sem síðar leiddu til andláts hans.

Hnífurinn er með um 20 sentimetra blaði. 

Verjandi Steinþórs segir í greinargerðinni að svo hægt sé að sakfella mann fyrir manndráp þurfi ásetningur geranda að vera sá að drepa einstaklinginn, eða vera ljóst að verknaðurinn sé líklegri en ekki að geta valdið dauða.

Steinþór hafi aðeins verið að verjast árás Tómasar og sjálfur ekki verið með vopn á sér. Til að sýna fram á beinan ásetning þurfi ákæruvaldið að sýna fram á að Steinþór hafi í vörn sinni verið ljóst að þær varnir væru líklegar til þess að valda dauða.

Bað um að Tómas yrði fjarlægður 

Fram hefur komið að daginn fyrir hið meinta manndráp hafi eiginkona Tómasar hringt í lögreglu og beðið um að Tómas yrði fjarlægður úr húsinu sem þau hafi verið í. Tómas hafi neitað að verða við beiðni lögreglu. 

Þá hafi Steinþór og annar maður, sem þau þekkja, hvatt hana að koma yfir til sín, þremur húsum frá. Gerði konan það og ætlaði að gista þar.

Tómas reyndi ítrekað að fá hana aftur yfir til sín símleiðis. Þegar það bar ekki árangur fór frændi Tómasar yfir og sagðist vera kominn að sækja hana. Þá sagðist hún vera orðin drukkin og ætlaði að fara sofa.

Vildi ekki heim með Tómasi

Tómas hafi því næst farið yfir og ætlaði að sækja hana. Þá hafi hún opnað fyrir honum og hleypt honum inn. Tómas hafi þar rætt við bæði konu sína og Steinþór í eldhúsinu. 

Reyndi hann að sannfæra hana um að koma aftur með sér heim en vildi hún það ekki. Steinþór hafi orðið þreyttur á Tómasi og sagt honum að koma sér. 

Átök hafi brotist út milli þeirra með fyrrgreindum afleiðingum, en Tómas lést af völdum stungusára. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert