Merki um að landrisið sé „að breiða úr sér“

Landrisið við Svartsengi hefur aðeins breitt úr sér.
Landrisið við Svartsengi hefur aðeins breitt úr sér. mbl.is/Eyþór

Líkur á eldgosi á Reykjanesskaganum hafa aukist að mati vísindamanna hjá Veðurstofu Íslands en ekki eru nema ellefu dagar liðnir frá síðasta gosi sem hófst með látum en fjaraði út á nokkrum dögum.

Ekki er ólíklegt að fyrirvarinn verði lítill, eins og síðast. Þá eru merki um að landrisið við Svartsengi sé aðeins að breiða úr sér.

„Já ég held að við verðum að gera okkur klár fyrir annað gos,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur og fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, spurður hvort eldgos sé í vændum.

Landrisið hefur breitt úr sér

Hann segir að öll merki séu að komast á svipaðan stað og fyrir gosið 18. desember en það þýði ekki að það sé öruggt að það gjósi að þessu sinni.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur og fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur og fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands. mbl.is/Eyþór Árnason

„Landrisið við Svartsengi verður komið í sömu hæð á morgun eða hinn og mældist rétt fyrir eldgosið þann 18. desember. Landrisið er á sama stað en merki sýna að það sé aðeins að breiða úr sér,“ segir Benedikt.

Spurður að ef það fari að gjósa megi þá búast við því að atburðarásin verði með svipuðum hætti og fyrir síðasta eldgos segir Benedikt Gunnar:

„Það er ekkert ólíklegt að það verði mjög veikir fyrirvarar og voru síðast. Það er nýbúið að gjósa þarna og það er allt opið þannig að það getur alveg læðst aftan að okkur.“

Gæti gosið á stærra svæði

Benedikt segir að líklegasti gosstaðurinn sé á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Hann segir að strax eftir stóru jarðskjálftana 10. nóvember þá hafi verið vísbendingar um gos á þessu svæði og 18. desember hafi orðið til kvikugangur sem sem gaus upp úr að hluta til.

„Gangurinn nær alveg frá Hagafelli og norður fyrir Stóra-Skógfell og endurtekinn atburður bendir á þetta svæði og á því verði líklegasta upptakasvæði fyrir eldgos. En við útilokum ekkert að það gjósi á einhverju aðeins stærra svæði. Við sáum 10. nóvember að kvikugangurinn fór alveg út í sjó fyrir sunnan Grindavík en flestum finnst það ólíklegt að það fari mikið sunnar en Hagafell ef það kemur upp gos,“ segir Benedikt.

Geta liðið vikur

Benedikt segir að það geti alveg liðið nokkrar vikur þar til fari að gjósa. Hann segir að fjórðungur kvikumagns af því sem gaus 18. desember sé komið inn í kerfið.

„Mögulega brotnar skorpan þegar kvikan verður komin á svipaðan stað og síðast. Þá verður mjög stutt í gos. Kannski er það magnið af kviku. Þá yrði tíminn lengri. Það erfitt að segja til um þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert