Rýming á Seyðisfirði vegna snjóflóðahættu

Mynd af snjóflóði sem féll í Vestdal í Seyðisfirði í …
Mynd af snjóflóði sem féll í Vestdal í Seyðisfirði í janúar á síðasta ári. Ljósmynd/Bjarki Borgþórsson

Ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands hefur lýst yfir hættustigi og að rýma þurfi reiti 4 og 6 á Seyðisfirði vegna snjóflóðahættu.

Ekki er talin vera hætta á öðrum stöðum eins og er, að því er segir í tilkynningu Veðurstofu Íslands.

Reitirnir sem um ræðir eru undir Strandartindi og ekki þarf stór flóð til þess að ógna þeirri byggð.

Búast megi við votum snjóflóðum

Vitað er um nokkur smærri snjóflóð sem hafa fallið í Norðfirði og eitt úr Skágili ofan við Neskaupstað sem stöðvaðist nokkuð utan við skógrækt. Líklega hafa fleiri flóð fallið í nótt og í morgun á Austfjörðum.

Talsvert hefur snjóað í fjöll en rignt á láglendi í hvassri austanátt á Austfjörðum. Áframhandandi austanátt er spáð með snjókomu til fjalla en rigningu á láglendi og neðri hluta hlíða. 

„Því má búast við votum snjóflóðum og mögulega krapaflóði á láglendi þegar líður á kvöldið. Ekki er búist við hraðfara þurrum flóðum í þessu veðri með langt úthlaup eins og í snjóflóðahrinunni í mars á síðasta ári,“ segir í tilkynningu Veðurstofu.

Dregur úr snjóflóðahættu á morgun

Á morgun dregur úr úrkomu og ætti að draga úr snjóflóðahættu, en mögulega getur verið krapaflóðahætta áfram.

Rýming í mars í fyrra

Í mars á síðasta ári voru rýmingar víða á Austfjörðum vegna snjóflóðahættu. Snjóflóð féllu á íbúðarhús í Neskaupstað.

Mikill viðbúnaður var vegna snjóflóðahættunnar og varðskipið Þór var nýtt í aðgerðirnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert