Baráttan við tvífarann

Gunnar Hersveinn hefur skrifað bókina Vendingu um vínlausan lífsstíl.
Gunnar Hersveinn hefur skrifað bókina Vendingu um vínlausan lífsstíl. mbl.is/Ásdís

Vending, ný bók eftir Gunnar Hersvein, er nú komin í hillur bókabúða. Í bókinni er fjallað um vínlausan lífsstíl en Gunnar notar eigin reynslu og aðferðir heimspekinnar til að skoða aðferðir sem henta vel til að tileinka sér líf án áfengis. Gunnar verður með heimspekikaffi þrisvar á næstunni þar sem hann fær til sín góða gesti til að ræða um vínlausan lífsstíl, en upplýsingar um það má nálgast á lifsgildin.is.

Alls staðar er vín

„Ég fékk mikinn áhuga á að breyta um lífsstíl og lifa án áfengis og var búinn að gera nokkrar tilraunir. Ég hætti að drekka eitt sinn í þrjá mánuði, svo í sex mánuði og í eitt ár, með það að langtímamarkmiði að losna alveg við þetta. Áfengi er ávanabindandi og maður verður ósjálfrátt háður því,“ segir Gunnar og segist hafa tekið eftir því undanfarið að vínmenning þjóðarinnar sé að breytast, og ekki til hins betra.

„Mér fannst alltaf alls staðar vera vín og mér finnst það hafa aukist verulega. Það þykir nú eðlilegt að hafa vín á boðstólum og mín til­finning er sú að fleiri og fleiri drekki oftar og of mikið,“ segir Gunnar.

„Ég tók svo þá ákvörðun að hætta þessu alveg og prófa nýjan lífsstíl. Mér fannst það virka mjög vel, en ég er ekki að gera þetta með viljastyrkinn að vopni heldur er þetta endanleg ákvörðun,“ segir Gunnar sem ákvað þá að skrifa bókina Vendingu, einfaldlega vegna þess að rithöfundar tjá sig með því að skrifa.

Að nota dyggðirnar

Í bókinni fer Gunnar yfir lífsgildi og notar heimspekilega nálgun til að fara yfir kosti þess að lifa án áfengis.

„Ég vel ákveðin gildi, eins og sjálfsaga, frelsi, harðfylgni og góðvild. Ég rýni í þessi hugtök út frá siðfræðinni og skoða hvernig hægt er að tileinka sér þau. Þetta eru dyggðir sem þarf að læra því maður fæðist ekki með neinar dyggðir. Maður er með einhvern grunn en þarf að æfa sig, þannig að það má segja að þetta sé einhvers konar hagnýt siðfræði,“ segir Gunnar og segir fólk geta notað þessar dyggðir til að læra að vera vínlaus.

„Þetta er ekki heilaþvottur eða snýst um umbun og refsingu, heldur frekar að nota dyggðirnar til að geta verið í vínlausum lífsstíl þar til þær eru orðnar hluti af þér. Þegar það gerist þarftu ekkert alltaf að vera að minna þig á þær því þær eru komnar í ósjálfráða kerfið.“

Tvær raddir takast á

Gunnar talar um „tvífara“ sinn í Vendingu og segir hann vera í raun gömlu útgáfuna af sér.

„Þetta er ákveðin barátta því þinn gamli maður hefur kannski ekki áhuga á þessu og oft er rödd í höfðinu á fólki sem segir: „Þú getur alveg drukkið, þú getur haldið þessu áfram, gerðu bara það sem þú vilt.“ Þessi rödd er að telja þér trú um að það sé ekki gáfulegt að tileinka sér vínlausan lífsstíl. En svo uppgötvar þú að þú ert ekki sá eða sú sem þú ætlaðir að vera. Svo er önnur rödd sem segir þér að verða sá sem þú ætlaðir að vera, þannig að á tímabili er þetta barátta. Maður þarf að temja sér að röddin sem vill heilbrigðari lífsstíl sé ríkjandi.“

Ítarlegt viðtal er við Gunnar Hersvein í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert