„Eigum ekki þessu að venjast í Noregi“

Juni Hordvin Johnsen, fréttakona frá norsku sjónvarpsstöðinni TV2.
Juni Hordvin Johnsen, fréttakona frá norsku sjónvarpsstöðinni TV2. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölgað hefur í hópi erlendra fjölmiðla sem eru komnir til landsins til að fjalla um eldgosið norðan við Grindavík sem hófst í gærmorgun.

Um 30 manna hópur íslenskra og erlendra fjölmiðlamanna komst nær gosstöðvunum í fylgd björgunarsveitarmanna og lögreglu í dag og ein þeirra var Juni Hordvin Johnsen, fréttakona frá norsku sjónvarpsstöðinni TV2 ásamt tökumanni.

Greinilega dregið úr kraftinum

„Við komum til landsins seint í gær og við sáum aðeins til eldgossins úr fjarlægð. Við sáum gosmökkinn og því var mjög ánægjulegt að geta komist nær þessum atburði í dag,“ segir Johnsen við mbl.is.

Fjölmiðlamenn börðu gosið augum frá sjónarhóli suðvestan við fjallið Þorbjörn, rúmlega 2 kílómetrum frá gosstöðvunum. Greinilega mátti sjá að dregið hafði úr krafti gossins frá því í gær.

Gos mallaði úr þremur gosopum og mesti krafturinn var í gosopi rétt sunnan Hagafells.

Var mjög spennt í morgun

„Ég var mjög spennt í morgun þegar við lögðum af stað í áttina að gosstöðvunum og það var tilkomumikið að sjá gosið úr þessari fjarlægð þótt það hafi ekki verið kröftugt. Við eigum ekki þessu að venjast í Noregi,“ segir Johnsen, sem er búsett í Ósló.

Hún segist gera ráð fyrir því að yfirgefa Ísland á morgun enda virðist svo vera að gosið sé hægt og bítandi að fjara út. 

„Ég hefði kosið að vera lengur því þetta er afar áhugaverður atburður sem átti sér stað ótrúlega nálægt byggðinni í Grindavík.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert