Vorkennir þeim á móti sem misstu allt

Glóandi hraun tók að renna inn í Grindavík eftir hádegi …
Glóandi hraun tók að renna inn í Grindavík eftir hádegi í gær og urðu þrjú hús þar hrauninu að bráð. mbl.is/Árni Sæberg

Hrannar Jón Emilsson segist reyna að halda áfram með lífið án þess að hugsa of mikið um hvað gerist í húsnæðismálunum eftir að húsið hans lenti undir hrauni í Grindavík í gær.

Framkvæmdum á húsinu, að Efrahópi 19, var að ljúka þegar eldgosið varð. Ætlaði fjölskyldan að flytja bráðlega inn.

Búa í Garðabænum

„Ég ákvað að halda áfram með lífið í augnablikinu og hitt verður eitthvað sem verður að vinnast úr á næstu dögum og mánuðum jafnvel,” segir Hrannar Jón um næstu skref í húsnæðismálum.

Sex manna fjölskyldan hans er búsett í leiguíbúð í Garðabæ og hefur það ágætt þar, miðað við aðstæður. Áður dvaldi hún í leiguhúsnæði að Víkurbraut 30 í Grindavík, sem núna hefur verið dæmt ónýtt eftir jarðhræringarnar í bænum.

Hraun flæddi yfir húsið hans Hrannars Jóns í gær.
Hraun flæddi yfir húsið hans Hrannars Jóns í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjartað leitar heim 

Hrannar Jón kveðst vera hálf skelkaður yfir því hvernig fór, degi eftir hamfarirnar, en heilsa hans og fjölskyldunnar sé sem betur fer góð og það sé fyrir öllu. „Ég er kannski meira á því stigi að vorkenna þeim fjölskyldum úr húsunum á móti sem misstu allt. Þau fóru mikið verr út úr þessu en ég,” segir hann og á þar við að búslóð þeirra hafi verið í húsunum. 

Spurður nánar út í óvissuna sem ríkir í húsnæðismálum hans og annarra Grindvíkinga kveðst hann vera mikill Grindvíkingur og hjartað leiti alltaf heim. „Eins og staðan er í dag þá verður maður að meta hvað er best fyrir fjölskylduna. Við erum bæði fædd og uppaldir Grindvíkingar þannig að hjartað var mjög sterkt í að fara heim. Ég var að starta öllum iðnaðarmönnum í síðustu viku til að klára þetta fyrir vor þannig að maður kæmist heim,” segir hann.

„Þangað til í gærmorgun var ég bara á leiðinni heim.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert