Landris gæti komið í veg fyrir stutt gos

Að minnsta kosti þrjú hús urðu hrauninu að bráð í …
Að minnsta kosti þrjú hús urðu hrauninu að bráð í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Margt bendir til þess að eldgosið við Grindavík sé að lognast út af en ekki er hægt að útiloka að það muni halda áfram ef landris heldur áfram í Svartsengi.

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði.

„Góðu fréttirnar eru þær að sprungan sem var rétt norðan við Grindavík virðist hafa lognast út af og framleiðnin á hinum strókunum hefur dregist verulega saman. Það hefur dregið verulega úr gosinu en hvort það sest til og heldur þessum dampi eða hvort það lognast út af, það verður að fylgjast með því og sjá hvernig þróunin verður í dag,” segir Þorvaldur.

„Ef það heldur áfram að draga úr gosinu myndi ég telja að því væri að ljúka og þá myndi þetta vera stutt gos eins og við vorum að tala um í upphafi.”

Þorvaldur bendir þó á að ekki sé augljóst landsig í Svartsengi og útlit fyrir að landris haldi þar áfram, sem væru neikvæðu fréttirnar. Ef það gerist er möguleiki á að gosið verði langvinnara og gæti haldið áfram næstu vikurnar.

Þorvaldur Þórðarson.
Þorvaldur Þórðarson. mbl.is/Arnþór Birkisson

Byggir sitt eigið landslag

„Jákvæðasta þróunin er ef þetta stoppar núna en ef þetta heldur áfram í einhverjar vikur eða mánuði þá stækkar hraunbreiðan og það myndi hafa veruleg áhrif á Grindavík,” útskýrir hann. Þannig myndi hraunbreiðan finna sér nýja farvegi og byggja sitt eigið landslag.

„Hvernig hún byggir það vitum við nákvæmlega ekki eins og er en miðað við þau hraunmódel sem við höfum þá virðist þetta ná inn til Grindavíkur á endanum.”

Kort/mbl.is

Flæðir inn í geymsluna ef landris heldur áfram

Spurður segir hann kvikuna safnast upp á svipuðum slóðum og hefur verið, þ.e. undir Svartsengi. Þar virðist kvikugeymslan sitja grynnst, eða á 4 til 5 km dýpi. Safnast þar ávallt fyrir frekar lítið magn, eða 10 til 15 milljónir rúmkílómetrar af kviku í hverri hrinu. Þegar kvikan fer af stað hálftæmist geymslan og þegar eitthvað magn af kviku er búið þá hættir gosið, líkt og gerðist í síðasta gosi 18. desember. Þar var kvikumagnið ekki nægilega mikið til að viðhalda löngu gosi.

En ef landris heldur áfram þá mun áfram flæða inn í kvikugeymsluna þrátt fyrir að það fari kvika úr henni á sama tíma. „Ef það heldur áfram getur það viðhaldið gosinu og þá getur það orðið miklu lengra gos. Það er nóg í þessari geymslu sem er dýpra, sem er á 10 til 15 km, þar erum við með feykilegt magn af kviku sem getur komið upp,” greinir Þorvaldur frá.

Hann bætir við að til þess að nýjar sprungur opnist eða núverandi sprungur stækki þyrfti aukningu innflæðis úr dýpra kvikuhólfinu. Ekkert úr mælingum gefi það til kynna.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Aldrei gosið í bænum á 14 þúsund árum

Spurður hvort það gæti gosið inni í Grindavíkurbæ kveðst hann ekki vilja útiloka það en telur það ólíklegt.

„Þrátt fyrir það sem búið er að gerast finnst mér það ólíklegt. Á 14 þúsund árum hefur aldrei gosið á því svæði sem Grindavík stendur á, þó svo að nokkur hraun hafi farið yfir það svæði. En það er mikið af sprungum sem hafa myndast í bænum og það er ennþá gliðnun í gangi í bænum og á Sundhnúkasprungunni. En ég held fast í það að það hefur ekki gosið innan bæjarmarka á síðustu 14 þúsund árum og ég sé enga ástæðu fyrir því að það ætti að breytast,” segir Þorvaldur.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Heldur áfram næstu árin 

Hann segir jafnframt ljóst að atburðirnir sem núna eru í gangi séu ekki búnir. Fagradalseldarnir hafi þegar verið og núna Sundhnúkaeldarnir. Ekki sé útséð með að þetta séu síðustu atburðirnir í síðarnefndu seríunni.

„Ég hugsa að við eigum einhver ár eftir af þessu og eins líka í Fagradalsfjalli. Og þetta gæti færst í Reykjanes. Við gætum verið að fá svona atburði nokkuð reglulega á næstu árum og jafnvel næsta áratug,” bendir hann á.

„Þó að þetta gos hætti þá er atburðarásin ekki búin,” heldur Þorvaldur áfram og ítrekar að gosin gætu færst til yfir í Eldvörp, aftur í Fagradalsfjall eða út á Reykjanes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert