Stóraukinn kraftur í hússnæðisstuðning

Grindavík úr lofti núna í hádeginu.
Grindavík úr lofti núna í hádeginu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnin mun framlengja þann stuðning við Grindvíkinga sem ráðist var í í kjölfar þess að bærinn var rýmdur 10. nóvember og á það bæði við um afkomustuðning og húsnæðisstuðning. 

Þá er von á frumvarpi um rekstrarstuðning við fyrirtæki í bænum.

Þetta kom fram að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. 

„Við erum búin að ákveða að setja stóraukinn kraft í það að tryggja húsnæði sem hefur verið óviðunandi þrátt fyrir þessi uppkaup þar sem við keyptum 80 – þá er þörfin enn þá meiri,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

„Mögulega eru líka atburðir helgarinnar að valda því að þau sem hafa verið sátt við að vera í skammtímahúsnæði sjá núna fram á að þau þurfa húsnæði til lengri tíma. Við vorum að fara yfir það framboð sem er í boði og hvað við getum ráðist í út frá því,“ bætir hún við.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á upplýsingafundi almannavarna í gær.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á upplýsingafundi almannavarna í gær. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þarf að fara aftur af stað

Hún segir vinnu Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ), sem sér um að meta tjón á eignum í Grindavík, hafa verið langt komna fyrir helgina. Atburðir helgarinnar setji þó strik í þann reikning.

„Nú þarf að fara aftur af stað í þeim efnum, hvað varðar tjón í bænum. Það er alveg ljóst að Grindvíkingar kalla mjög eftir því að þeirri vinnu verði lokið. Við sáum fram á að við væru mjög langt komin en við þurfum að endurmeta þá stöðu.“

Að sögn Katrínar er einnig von á frumvarpi um rekstrarstuðning við fyrirtæki í bænum. „Ég vænti þess að þessi vika verði nýtt alfarið í þá vinnu. Við ætlum að óska eftir fundi með bæjarstjórn Grindavíkur á morgun.“

Þá væntir hún þess einnig að ríkisstjórnin muni óska eftir fundi með fulltrúum stjórnarandstöðunnar. Segir hún mikilvægt að Alþingi sé samstíga í þessum aðgerðum.

„Markmiðið er að þegar þing kemur saman á mánudag að þá liggi fyrir nokkur frumvörp sem taka á þessum ólíku þáttum.“

Halda áfram að verja bæinn

Hefur borist til tals að lýsa bæinn óíbúðarhæfan, sérstaklega með tilliti til öryggissjónarmiða?

„Okkar áætlanir miðast við það að halda áfram aðgerðum til að verja byggð í Grindavík og halda áfram byggingu varnargarða sem við erum byrjuð á og hafa þegar sýnt gildi sitt þó að ekki verði við allt ráðið eins og sjá má á þeirri sprungu sem kom upp innan varnargarða. Þá sjáum við líka hversu miklu þeir geta skipt. Þannig að okkar aðgerðir miðast við það.“

Hún segir þó vafalaust ólíkar skoðanir meðal Grindvíkinga hvernig þeir vilja að tekið verði á málinu. 

„Stjórnvalda er fyrst og fremst að gefa þeim færi að taka ákvörðun. Hvort þeir vilji snúa aftur síðar meir eða flytja sig á annan stað.

Meðan þessi mál eru ógerð hvað varðar tjón og annað, þá er það mjög erfitt. Þess vegna er mjög rík krafa á okkur að ljúka þeirri vinnu. Og hún verður algjört forgangsmál núna á næstunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert