„Síðasta stóra verkefnið“

Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu.
Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu, segir að vinna við gerð nýja varnargarðsins við Grindavík gangi vel en hún hófst fyrir rúmri viku síðan.

Garðurinn er byggður fyrir innan varnargarðinn sem var þegar til staðar norðan og austan við Grindavík.

„Vinnunni miðar vel áfram. Nýr hluti varnargarðsins verður um 800 metrar og svo færum við til hliðar efsta hlutann á öðru svæði og aukum rýmið til að hleypa þá hrauninu betur niður,“ segir Jón Haukur sem spjallaði við blaðamann mbl.is í Grindavík í dag.

Tilgangurinn með gerð varnargarðsins er að taka við ef það verður yfirflæði og sérstaklega við þunnfljótandi rennsli og leiða það framhjá bænum.

Garðurinn er byggður fyrir innan varnargarðinn sem var þegar til …
Garðurinn er byggður fyrir innan varnargarðinn sem var þegar til staðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Haukur segir að farið verði að sjá fyrir endann á verkinu í lok næstu viku en búið er að koma fyrir töluverði magni af efni í garðinn og hann sé kominn í þá hæð sem hann verður í eða um fimm metrar.

Þegar þessu verki lýkur er þá vinnu við gerð varnargarða þar með lokið?

„Þetta er síðasta stóra verkefnið á meðan ekkert meira bjátar á. Það á ennþá eftir að loka götum við fjarskiptamiðstöðina, gati sem er á veginum þangað og gati sem á gamla Bláa lónsveginum. Þegar þessu lýkur fer þetta að renna sitt skeið. Þá verður bara eftir frágangur.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert