Ónýtar lagnir í Grindavík eftir frosthörkur

Dæmi eru um það að hús í Grindavík séu með …
Dæmi eru um það að hús í Grindavík séu með ónýtar lagnir eftir frosthörku síðustu daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 50 pípulagningamenn hafa farið í um 600 hús í Grindavík í vikunni til að koma í veg fyrir vatns- og lagnatjón. Búið er að bjarga gríðarlegum verðmætum en þó eru einhverjar frostskemmdir.

Þetta segir Böðvar Ingi Guðbjartsson, formaður Félags pípulagningameistara, en hann nefnir að almannavarnir hafi haft samband við félagið til að fara í þessar aðgerðir. Böðvar segir að félagsmenn hafi tekið vel í þá beiðni.

Böðvar segir að sum staðar hafi verið of lítill þrýstingur á kerfum þar sem dreifikerfið sé mjög laskað og því hafi þurft að reyna laga þrýstinginn.

Bjargað hundruðum húsa frá frostskemmdum

Dæmi eru um það að hús í Grindavík séu með ónýtar lagnir eftir frosthörkur síðustu daga.

„Það var víða frosið í snjóbræðslum og víða frosið í inntökum. En við erum búnir að ná að bjarga fleiri hundruðum húsa frá frostskemmdum,“ segir Böðvar og bætir við að starfsmenn HS Veitna hafi unnið þrekvirki síðustu daga við að reyna koma dreifikerfinu í lag.

„Þeir hafa staðið sig mjög vel.“

Gríðarleg vermætabjörgun

Pípararnir fengu lista með 700 húsum sem þurfti að athuga ástandið á og eiga þeir nú um 100 hús eftir.

„Þetta er búin að vera gríðarleg vermætabjörgun á fasteignum í Grindavík,“ segir hann og minnir á að vatnstjón í húsum geti hlaupið á milljónum króna.

Böðvar segir að það séu miklar öryggisráðstafanir til að tryggja öryggi fólks við vinnu í bænum.

„Svæðið er mjög vel vaktað og það eru alltaf tveir saman í hóp. Einn hópur er skilgreindur tveir menn. Allir menn þurfa að vera með sýnileikafatnað, fallvarnarbúnað, hjálm með ljósi og með hverjum hópum fylgja björgunarsveitarmenn.“

Vökvuðu plöntur

Pípararnir hefja aftur störf í Grindavík í dag.

„Grindavík er fallegur bær sem vert er að bjarga þar sem ástand hundruða húsa er í toppstandi. “

Nefnir Böðvar að píparar hafi margir hverjir vökvað plöntur eigenda á meðan þeir voru að yfirfara hitakerfin í húsum. Hann segir eigendur hafi tekið mjög vel í það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert