Óska eftir mannskap: „Vantar fleiri hendur“

Frá Grindavík í gær.
Frá Grindavík í gær. mbl.is/Eyþór Árnason

Almannavarnir hafa óskað eftir mannskap til að hjálpa til við flutninga í Grindavík og biðla til fyrirtækja sem geta mögulega sent mannskap í bæinn.

Greitt er fyrir vinnuna sem unnin væri að mestu á dagvinnutíma að því er fram kemur í tilkynningu frá almannavörnum og er birt á grindavik.is.

Nokkrir orðið við beiðninni

Að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur, samskiptastjóra almannavarna, þá hafa nokkrir aðilar orðið við beiðni almannavarna og vonir standa til að fleiri gefi sig fram í dag. 

„Það vantar fleiri hendur og vonandi fáum við meiri mannskap til að hjálpa til flutningana,“ segir Hjördís við mbl.is.

Verðmætabjörgun heldur áfram í Grindavík í dag en opnað var fyrir aðgang fólks og fyrirtækja að bænum á fyrir fram ákveðnum stöðum klukkan 9 í morgun og verður svæðið opið til klukkan 15 í dag.

„Það hefur gengið vel síðustu tvo daga og fólk komst inn í bæinn án þess að þurfa bíða í langan tíma í röð,“ segir Hjördís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert