„Einhverjir taka allt“

Pétur Benediktsson, varaslökkviliðsstjóri í Grindavík.
Pétur Benediktsson, varaslökkviliðsstjóri í Grindavík. mbl.is/Eyþór

„Einhverjir taka allt, kannski 10% gæti ég trúað,“ segir Pétur Benediktsson varaslökkviliðsstjóri í Grindavík. Hann segir í samtali við mbl.is að verðmætabjörgun Grindvíkinga hafa gengið mjög vel síðustu tvo daga.

„Það er ekki stór fjöldi sem er að taka alla búslóðina sína en það er klárlega einhver fjöldi sem taka sófa eða rúm eða eitthvað sem þarf bara inn á annað heimili.“

Spurður hvernig hann skynji líðan þeirra sem koma í Grindavík til að sækja eigur sínar, segir Pétur það misjafnt. 

„Slagur sem við konan eigum eftir að taka“

„Flestir eru náttúrulega mjög daprir og eftir því sem lengra líður þá verður þetta bara erfiðara,“ segir hann.

Hann kveðst þó ekki vita hvort margir muni ekki snúa aftur, mörgum gæti snúist hugur þegar fari að róast. Sjálfur hafi hann lengi búið í Grindavík og gæti hugsað sér að flytja aftur ef færi gefst á. Nú sé hann komin með húsnæði í Reykjanesbæ.

„Þetta er slagur sem við konan eigum eftir að taka, en við verðum alla vega klárlega saman hvar sem það verður,“ segir Pétur og hlær.

Blaðamaður og ljósmyndari mbl.is fóru til Grindavíkur í dag í fylgd með samskiptastjóra almannavarna og lögreglumanni. mbl.is og öðrum fjölmiðlum var hins vegar meinað að fylgjast með verðmætabjörgun íbúa.

Grindvíkingar hafa fengið færi á að vitja eigna sinna í …
Grindvíkingar hafa fengið færi á að vitja eigna sinna í dag og í gær. mbl.is/Óttar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert