„Ekki tilbúin að henda frá mér aleigunni“

Rýkur úr nýju hrauni skammt norðan Grindavíkur.
Rýkur úr nýju hrauni skammt norðan Grindavíkur. mbl.is/Eyþór

Hanna Þóra Agnarsdóttir, íbúi í Grindavík, segist ekki vera tilbúin að taka ákvörðun um framtíð sína og að þurfa að ákveða um heimili sitt í Grindavík alla vega næsta árið.

„Ég vil að okkur verði gefinn lengri tími til að taka slíka ákvörðun og að mér séu settir einhverjir úrslitakostir um að þurfa að taka ákvörðun um líf mitt og minna,“ segir hún í samtali við mbl.is.

„Við erum langflest að koma mjög illa út úr þessu. Það er ekkert samræmi á milli fasteignaverðs í Grindavík og á höfuðborgarsvæðinu, þar sem flestir vilja munu vilja koma sér niður vegna vinnu og annarra þátta. Fólk kemur til með að lenda í miklum vandræðum.“

Búið að kosta okkur óhemju mikið

Hún segir að margir séu illa staddir fjárhagslega. „Þetta er búið að kosta okkur óhemju mikið. Ekki bara fjármagn heldur hefur heilsan bitnað á fólki,“ segir hún.

Hanna Þóra Agnarsdóttir heldur í vonina um að geta flutt …
Hanna Þóra Agnarsdóttir heldur í vonina um að geta flutt aftur til Grindavíkur. Ljósmynd/Aðsend

Hanna flutti ásamt tveimur uppkomnum börnum sínum og gæludýrum til Grindavíkur í fyrravor. Íbúðin stendur við Laut 16.

„Það er ekki að sjá neinar skemmdir á íbúðinni. Það er allt eins og þegar við yfirgáfum hana 10. nóvember. Mér finnst ekkert aftra því að ég geti flutt aftur í íbúðina. Þar sem við erum með gæludýr þá hefur reynst erfitt að fá húsnæði,“ segir Hanna.

Hún kveðst gera sér grein fyrir því að innviðir í bænum séu laskaðir og að skrá þurfi niður sprungur í bænum og holrými. 

„Stærsti parturinn af bænum er í lagi og þar á meðal er mitt svæði. Ég er í vesturhlutanum að vísu í sigdal en ekkert hefur komið fram um að þar sé ekki hægt að vera.“

Mun tapa gríðarlegum fjármunum

Hún segist munu tapa gríðarlegum fjármunum, nái frumvarp ríkisstjórnarinnar um kaup á húsnæði Grindvíkinga fram að ganga að óbreyttu.

„Ég og mín börn náðum með herkjum að kaupa okkur húsnæði í Grindavík síðastliðið vor sem passaði fyrir okkur. Við komum ekki til að fá útborgunina sem við lögðum í húsnæðið og við komum hvergi til með að fá sambærilegt húsnæði á því svæði sem við þurfum að vera á vegna vinnu og skóla,“ segir Hanna Þóra.

Sjálfsagt sé að sinna þeim sem hafa ákveðið að flytja alfarið í burtu frá Grindavík en aðrir þurfi ekki að taka þessa ákvörðun strax. Hún segist vilja frá frest út árið í það minnsta.

„Það er enn þá von fyrir þá sem vilja flytja aftur heim og meðan sú von er til staðar þá er ég ekki tilbúin að henda frá mér aleigunni. Það er mikill meirihluti Grindvíkinga sem vill snúa aftur heim og bíður í rauninni eftir grænu ljósi á að það verði opnað aftur fyrir búsetu.“

Hún segist halda í vonina um að geta flutt aftur til Grindavíkur. Sé aftur á móti þegar búið að afskrifa Grindavík, þá vilji hún fá upplýsingar um það.

Glóandi hraun rann inn í Grindavíkurbæ þann 14. janúar.
Glóandi hraun rann inn í Grindavíkurbæ þann 14. janúar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Búa í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði

Hanna ásamt börnum sínum hefur undanfarna mánuði búið í iðnaðarhverfi nálægt Ásvöllum í Hafnarfirði, nánar tiltekið á Hringhellu. Um er að ræða sumarhús sem hún fékk til afnota hjá bróður sínum.

„Þetta er ekki heilsársbústaður og það er því kalt í honum núna. Umhverfið er ekki skemmtilegt. Í kringum okkur eru verksmiðjur, flutningabílar og vörubílar sem keyra og fram og til baka og þetta er ekki staður til búa á til lengri tíma,“ segir hún.

„Við erum samt sem áður gríðarlega þakklát fyrir að hafa þetta húsnæði fyrir okkur öll. Það var bróðir minn sem greip okkur en ekki stjórnvöld.“

Náttúran ekki sammála okkur

Hanna segist hafa farið inn í húsnæði sitt í Grindavík í öll skiptin sem leyfi hefur gefist og áður en það fór að gjósa í janúar hafi þau verið farin að gista í íbúðinni.

„Við vorum nokkuð viss á þeim tímapunkti um að við værum að flytja aftur heim, en náttúran er ekki alveg sammála okkur. Hún er við stjórn í dag og við verðum bara að vinna með henni eins og hægt er,“ segir hún.

„Ég er ekki tilbúin til þess að gefast upp og afskrifa Grindavík en það er víst ekki á mínum höndum að ákveða það. Ég verð bara að sigla þann sjó sem mér er færður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert