„Mér finnst þetta svakalegt“

Ráðherra skoðar aðstæður við nýrunnið hraunið sem glöggt má sjá …
Ráðherra skoðar aðstæður við nýrunnið hraunið sem glöggt má sjá í baksýn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í samtali við mbl.is að með ákvæði um kaupverð miðað við 95 prósent af brunabótamati húseigna í Grindavík, í húsakaupafrumvarpinu svokallaða, hafi meðal annars verið horft til jafnræðis við þá sem séu með altjón hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands og beri þar ákveðna eigin ábyrgð.

„Í þeim lögum [um Náttúruhamfaratryggingu] er líka miðað við brunabótamat þannig að við erum að reyna að tryggja jafnræði við þau sem hafa lent í tjóni vegna náttúruhamfara bæði fyrr og síðar,“ segir Katrín sem stödd var í Svartsengi þegar mbl.is náði tali af henni nú undir kvöld.

Bendir hún á að opið sé fyrir athugasemdir við frumvarpið í Samráðsgátt stjórnvalda fram á kvöld „og við reynum væntanlega að vinna aðeins úr því, auðvitað eru alls konar athugasemdir að koma og erfitt að segja að ein stærð henti öllum í þessu“, segir ráðherra og kveður ríkisstjórnina hafa borið hagsmuni íbúa á svæðinu fyrir brjósti við undirbúning frumvarpsins. „Við reynum um leið að tryggja jafnræði gagnvart náttúruhamförum fyrr og síðar.“

Frumvarpið um húsakaup í Grindavík sem kynnt hafi verið sé …
Frumvarpið um húsakaup í Grindavík sem kynnt hafi verið sé afrakstur vinnu ríkisstjórnarinnar og nú verði athugasemdir við það teknar til skoðunar. „Fyrir þeim verður gerð grein þegar málið kemur til þingsins og svo verðum við að sjá hvaða breytingum það tekur í þinglegri meðferð,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðstæður fólks mismunandi

Spurð út í athugasemd sem fjallar um flutning lána yfir á aðrar eignir svarar Katrín því til að lagt hafi verið upp með að ná samkomulagi við fjármálafyrirtækin og bankarnir séu hluti af þessu samkomulagi. „Þetta felur það í sér að þeir taka þátt í fjármögnun verkefnisins og það þýðir að fólk flytur ekki lánin með sér,“ segir Katrín. „En auðvitað eru aðstæður fólks mjög mismunandi og einhverjir hafa tekið lán á mjög hagstæðum kjörum, það er ólíkt milli einstaklinga eins og gengur,“ heldur hún áfram.

Það frumvarp sem kynnt hafi verið sé afrakstur vinnu ríkisstjórnarinnar og nú verði athugasemdir við það teknar til skoðunar. „Fyrir þeim verður gerð grein þegar málið kemur til þingsins og svo verðum við að sjá hvaða breytingum það tekur í þinglegri meðferð,“ segir ráðherra.

Hluti af hugmyndafræðinni að baki frumvarpsins sé að verið sé að fjármagna verkefnið í samstarfi þriggja aðila, Náttúruhamfaratryggingar, ríkissjóðs og bankanna. „Það væri því flókið að víkja frá þeirri hugmyndafræði [...] og það getur vel verið að þetta frumvarp eigi eftir að taka einhverjum breytingum en þetta er auðvitað grundvallaratriði í uppbyggingunni, að bankarnir taki þátt í fjármögnuninni,“ segir Katrín.

Hvað með atvinnurekendur og lögaðila á svæðinu?

„Það kom fram hjá okkur þegar við kynntum þetta að við myndum forgangsraða íbúum og það er okkar frumskylda og í raun bara sama forgangsröðun og er almennt í tengslum við náttúruhamfarir, sömu lögmál og hafa gilt hjá Ofanflóðasjóði svo dæmi sé tekið,“ svarar ráðherra.

Unnið við nýju hjáveitulögnina.
Unnið við nýju hjáveitulögnina. mbl.is/Eyþór

Tímabundinn rekstrarstuðningur

Hins vegar sé nauðsynlegt að skoða framhaldið og af þeim vettvangi segir Katrín ríkisstjórnina hafa kynnt tímabundinn rekstrarstuðning til fyrirtækja. „Svo þarf að skoða hvernig þessu verði háttað í framhaldinu því þessi rekstrarstuðningur er auðvitað bara tímabundinn,“ segir hún enn fremur og svarar því aðspurð að næsta verkefni sé í raun að skoða hver tímaramminn þar verði. Þegar húsakaupafrumvarpið verði orðið að lögum sé komið að því að skoða þann hluta málsins.

Lokaspurning til Katrínar er hvernig henni komi allt það fyrir sjónir sem atvikast hafi í Grindavík á svo skömmum tíma.

„Mér finnst þetta svakalegt. Að sjá þetta hraun er ótrúlegt, en líka að sjá það sem gert hefur verið hér í framkvæmdum. Hér er svo sannarlega barátta manns við náttúruöflin, hér sést hún mjög berlega og það er sannarlega áhrifamikið að sjá þetta með eigin augum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert