Vilja að dómarinn víki í hoppukastalamálinu

Hoppukastalamálið varðar slys sem varð í hoppukastala á Akureyri fyrir …
Hoppukastalamálið varðar slys sem varð í hoppukastala á Akureyri fyrir rúmlega tveimur og hálfu ári síðan. mbl.is/Margrét Þóra

Þrír af fimm sakborningum í hoppukastalamálinu svokallaða krefjast þess að dómarinn í málinu víki vegna meints vanhæfis. Dómarinn úrskurðar um eigið hæfi á morgun.

Hoppukastalamálið varðar slys sem varð í hoppukastala á Akureyri fyrir rúmlega tveimur og hálfu ári síðan. Þar slösuðust börn og voru fimm ákærðir fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi.

Ragnar Björgvinsson, lögmaður Gunnars Gunnarssonar sem er forstjóri Ævintýralands Perlunnar, fullyrðir í samtali við mbl.is að héraðsdómarinn, Hlynur Jónsson, reki erindi ákæruvaldsins.

Segir ákæruvaldið hafa haldið aftur af gögnum

„Það er í raun bara fjöldi atriða sem hefur komið í ljós í gegnum meðferð málsins þar sem dómarinn hefur ekki verið að gæta að hlutlægni og gengið erinda ákæruvaldsins – reynt að lappa mikið upp á málflutning ákæruvaldsins,“ segir Ragnar og bætir við:

„Það í raun tók steininn úr þegar kom í ljós að ákæruvaldið var búið að halda aftur af mjög miklu af gögnum. Dómarinn neitaði meira að segja að boða til þinghalds til að fjalla um þá stöðu. Þetta voru yfir 13 gígabæt af gögnum.“

Meðal þess sem Ragnar vísar til eru myndir, upptökur og myndband úr búkmyndavél af vettvangi sem verjendur fengu ekki, að hans sögn, aðgang að. Aðspurður sagði fulltrúi ákæruvaldsins að hann teldi gögnin ekki hafa sönnunargildi, segir Ragnar.

Þrátt fyrir það fengu matsmenn aðgang að gögnunum og gerðu svo matsgerð sem sjálf ákæran er byggð á, að sögn Ragnars. Því sé þess einnig krafist af hálfu sakbornings að ákæruvaldið teljist vanhæft og ákærunni vísað frá.

Telur aðra hrædda við að taka afstöðu gegn dómaranum

Hann segir að það sé rökstutt í löngu máli af hverju dómarinn sé vanhæfur í kröfu sem send var á dómstólinn. Ragnar telur allar líkur á því að dómarinn muni meta sig sjálfan hæfan. Slíka niðurstöðu er hægt að kæra til Landsréttar.

Spurður að því af hverju allir sakborningar hafi ekki tekið þátt í kröfunni um að dómarinn myndi víkja sökum vanhæfis segir Ragnar að hann telji að það sé vegna þess að þeir þori ekki að taka afstöðu gegn dómaranum, þar sem það muni bitna á þeirra umbjóðendum.

„Þeir eru þá hræddir um að dómarinn muni láta það bitna á sínum umbjóðendum. Það eitt og sér segir allt sem segja þarf um hæfi dómarans ef það er staðan,“ segir Ragnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert