Samningur Landsvirkjunar og stórnotenda rannsakaður

Brjóti samningsákvæði í bága við samkeppnislög teljast þau ógild samanber …
Brjóti samningsákvæði í bága við samkeppnislög teljast þau ógild samanber ákvæði samkeppnislaga. Samsett mynd/Landsvirkjun/mbl.is/Eggert

Til rannsóknar er hvort samningur Landsvirkjunar við stórnotendur standist samkeppnislög og samkeppnisreglur EES-samningsins. Um er að ræða ákvæði sem kveður á um að stórnotendum sé ekki heimilt að selja frá sér ónýtta raforku aftur inn á kerfið.

Þetta kemur fram í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins þar sem segir að takmarkanir sem þessar af hálfu markaðsráðandi fyrirtækis, sem Landsvirkjun kann að vera, geti falið í sér brot á banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga og EES-samningsins.

Þannig geti þau verið til þess fallin að verja eða styrkja stöðu Landsvirkjunar á kostnað viðskiptavina og almennings.

Bann við sölu ógilt?

Brjóti samningsákvæði í bága við samkeppnislög teljast þau ógild samanber ákvæði samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið tilkynnti Landsvirkjun um rannsókn sína með bréfi dagsettu 9. febrúar í kjölfar þess að hafa óskað eftir upplýsingum um samningsákvæðin frá Landsvirkjun í nóvember á síðasta ári.

Í rannsókn sinni mun Samkeppniseftirlitið skilgreina raforkumarkaðinn og meta stöðu Landsvirkjunar á honum. Verði fyrirtækið talið markaðsráðandi á raforkumarkaði mun Samkeppniseftirlitið meta hvort það hafi gerst brotlegt og telji eftirlitið að íþyngjandi ákvörðun kunni að verða tekin verður Landsvirkjun gefin kostur til andmæla.

ESA upplýst um rannsóknina

Rannsókn málsins er á fyrstu stigum og í tilkynningu sem þessari um upphaf máls felst hvorki endanleg afstaða til mögulegra brota né vísbending um mögulega niðurstöðu rannsóknarinnar. 

Samkeppniseftirlitið hefur upplýst ESA, Eftirlitsstofnun EFTA um rannsóknina í samræmi við skyldur sínar sem samkeppnisyfirvöld á evrópska efnahagssvæðinu. ESA hefur ekki áður lagt mat á hvort ákvæði samninga Landsvirkjunar við stórnotendur innihaldi ákvæði brjóta gegn samkeppnisreglum EES-samningsins, að því er fram kemur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert