Meta þörfina á endurskoðun varnarmála

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra segir vinnu í gangi í ráðuneytinu við að skoða sérstaklega þörf fyrir endurskoðun á því sem snýr sérstaklega að varnarmálum. Þá segist Bjarni styðja inngöngu Úkraínu í NATO og að hann hafi verið skýr um það á fundum sem hann hafi sótt. Þetta kom fram í máli hans í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, spurði Bjarna þar út í nýlegar „glannalegar“ yfirlýsingar Donalds Trumps, fyrrverandi forseta og núverandi forsetaframbjóðanda í Bandaríkjunum, en hann hefur sagt að hann muni ekki koma ríkjum Evrópu til aðstoðar verði ráðist á þau uppfylli þau ekki kröfu um auknar fjárveitingar til varnarmála.

„Þurfum að vera með plan og hvert er planið?“

Sagði Þorgerður að ríki Evrópu væru öll að þjappa sér saman vegna stöðunnar, rætt væri um byggingu kjarnavopna í Þýskalandi og ríki álfunnar væru að endurmeta varnir sínar og öryggi. „Ég vona og ég hvet hæstvirtan ráðherra til að segja okkur að þetta sé haft í huga því að við megum ekki vera með þann hugsunargang þegar kemur að vörnum og öryggi að þetta reddist bara og svo sjáum við til. Við þurfum að vera með plan og hvert er planið?“ spurði Þorgerður.

Bjarni sagði orð Trumps ekki vera ný skilaboð. Hann hefði áður gert kröfu um að NATO-ríkin uppfylltu kröfu um 2% framlag til varnarmála af landsframleiðslu. Sagði hann að í dag uppfylltu 19 Evrópulönd í NATO þessi viðmið, en að það væri ekki vegna orða Trumps. „Þetta er vegna þess að heimurinn hefur breyst,“ sagði Bjarni.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Hákon

Lýðræðisríki að takast á við eins konar einræðisríki

Sagði hann að á vígvellinum í Úkraínu væri verið að takast á um ákveðin grunngildi um það hvort virða beri alþjóðalög og hvort landamæri skipti máli. „Þar erum við annars vegar að sjá lýðræðisríki í vörn og hins vegar eins konar einræðisríki takast á. Og þegar Þjóðverjar stórauka nú við vopnaframleiðslu sína er það ekki vegna orða Trumps, það er vegna þess að heimurinn er breyttur,“ sagði Bjarni.

Tiltók hann að búið væri að endurskilgreina norðvestursvæði NATO innan samtakanna. Það hafi haft þau áhrif að eftirlit á svæðinu hafi verið eflt.

Bjarni vísaði einnig til þess að nýlega hafi Alþingi tekið til endurskoðunar þjóðaröryggisstefnu Íslands án þess að hún hafi verið mikið rædd. Hann hefði hins vegar sett í gang vinnu við að endurskoðun á varnarmálum í ráðuneytinu. „En ég er með í mínu ráðuneyti vinnu við að skoða sérstaklega þörfina fyrir endurskoðun á því sem snýr sérstaklega að varnarmálunum.“

„Getum ekki alltaf lifað á því að þetta reddist“

Þorgerður sagðist fagna þessum orðum Bjarna og vonaðist eftir að samsetning ríkisstjórnarinnar kæmi ekki í veg fyrir að Ísland myndi móta eigin sjálfstæðu varnarstefnu. „Við getum ekki alltaf lifað á því að þetta reddist. Við getum ekki leyft okkur að haga okkur þannig þegar kemur að öryggi borgaranna og öryggi þjóðarinnar þegar það er undir,“ sagði Þorgerður.

Spurði Þorgerður Bjarna næst um skoðanir Andres Fogh Rasmussen, fyrrverandi framkvæmdastjóra NATO, um að hleypa Úkraínu sem allra fyrst inn í samtökin, og svo hernumdu svæðunum innan Úkraínu strax og búið sé að frelsa þau.

Bjarni svaraði því til að hann hefði alltaf stutt inngönguferli Úkraínu. „Varðandi aðild Úkraínu að NATO þá höfum við stutt það ferli og ég hef verið mjög afdráttarlaus í öllum yfirlýsingum varðandi það á þeim fundum sem ég hef sótt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert