Forsenduákvæðin gengu ekki nógu langt

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir helstu ástæðuna fyrir því að VR hafi dregið sig út úr breiðfylkingu stéttarfélaga í samningaviðræðunum við Samtök atvinnulífsins vera að SA hafi sett VR afarkosti í gær varðandi forsenduákvæðin.

VR og Landsamband íslenzkra verslunarmanna, LÍV, ákváðu í dag að kljúfa sig frá breiðfylkingunni í viðræðunum við SA en Starfsgreinasambandið, Efling og Samiðn halda viðræðunum áfram og ætla að funda alla helgina.

Ósammála

„Við í breiðfylkingunni vorum ósammála hvort forsenduákvæðin gengu nógu langt eða ekki og við ákváðum að stíga til hliðar,“ segir Ragnar við mbl.is.

Spurður hvað sé í forsenduákvæðunum sem VR sætti sig ekki við segir Ragnar:

„Ég er ekki tilbúinn til þess að ræða það í smáatriðum. Þetta eru flókin aðferðarfræði sem við vorum að vinna með og það er full mikil einföldun að draga eitthvað eitt út. Í grunninn fannst okkur þau ekki ganga nógu langt,“ segir Ragnar.

Einhugur í baklandinu

Ragnar segir að það hafi verið einhugur í baklandinu um þessa ákvörðun, stöðuna og næstu skref. Ekki hafi verið neinn ágreiningur um það.

Breiðfylkingin fyrir utan VR og LÍV hafa skrifað undir forsenduákvæðin og ætlar að halda sínu striki í viðræðunum um nýjan kjarasamning.

„Ég óska þeim alls hins besta í vinnunni og þau munu að öllum líkindum gera alvarlega atlögu að því að klára þetta um helgina og það er mín einlæga ósk að þau nái ásættanlegri niðurstöðu fyrir sína hópa og það yrði þá grunnur sem við getum byggt á og getum þá tekið upp þráðinn til að fylgja þeirri vinnu eftir og náð því í gegn sem við teljum vanta inn í samninginn fyrir okkar hópa.“

Ólík félög og með ólíka samsetningu

Ragnar segir að breiðfylkingin hafi unnið mjög vel saman í marga mánuði að því sameiginlega markmiði sem í sjálfu sér sé óbreytt, þ.e. að ná niður vöxtum og verðbólgu. 

Hann segir að þetta séu ólík félög sem myndi bandalagið og þau séu m.a. með ólíka samsetningu félagsfólks og tekjuhópa.

Hann segir að búið sé að vinna gríðarlega mikla vinnu nú þegar sem geri það að verkum að ekki þurfi að fara á einhvern byrjunarreit.

„Við erum ósammála um ákveðin grundvallaratriði sem snúa að forsendum og nauðsynlegum hvata til þess að fyrirtækin séu líkleg til að taka þátt og sömuleiðis varnir fyrir okkar fólk til að geta komist út ef um þrýtur. Það er ekkert óeðlilegt að fólk sé ekki sammála en við komumst bara ekki að samkomulagi um þetta atriði,“ segir Ragnar.

Hvert verður framhaldið hjá VR?

„Við erum langstærsta stéttarfélag landsins og landsamband líka. Þetta eru VR og LÍV og við erum algjörlega samstíga í næstu skrefum varðandi þessa niðurstöðu. Við erum að fara yfir okkar stöðu bæði hvað varðar hvaða leiðir við teljum vera skynsamlegar og góðar fyrir okkur að fara til að ná þeim markmiðum sem við teljum að þurfa að koma inn í samninginn til þess að endamarkmiðið náist.“

Skoða möguleika að fara í bandalag með öðrum félögum

ER VR að fara í samflot með iðnaðarmönnum?

„Það hefur ekkert verið ákveðið í þeim efnum. Við erum stærsta félagið og metum stöðuna það sterka að við getum náð því fram sem við teljum að þurfi að ná fram ein og óstudd. En við erum líka að skoða möguleikann á því að fara í bandalög með öðrum félögum sem hafa staðið fyrir utan. Helgin verður notuð í að tengja og spjalla og sjá hvar möguleikar eru að ná mögulega saman með öðrum félögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert