Við komum til Íslands, ekki Ísland til okkar

Tetiana Korolenko kann vel við sig á Íslandi.
Tetiana Korolenko kann vel við sig á Íslandi. mbl.is/Eyþór Árnason

Tetiana Korolenko, menningarmiðlari hjá Reykjavíkurborg, er afar þakklát fyrir það hvernig tekið hefur verið á móti löndum hennar frá Úkraínu hér á landi. Sjálf flúði hún hingað vorið 2022.

„Það er ekki sjálfgefið, jafnvel þó verið sé að flýja stríð. Það erum við sem komum hingað, en ekki Ísland til okkar, þannig að það stendur upp á okkur að aðlagast. Það gengur auðvitað misjafnlega, tungumálið getur til dæmis verið brekka, sérstaklega fyrir þau sem tala litla sem enga ensku. En kerfið hér er til fyrirmyndar og verkalýðsfélögin mun sterkari en við eigum að venjast heima, þannig að réttur okkar er ekki fyrir borð borinn,“ segir hún.

Prýðilega hefur gengið að koma fólki í vinnu en það er alla jafna láglaunavinna, svo sem við þrif eða í eldhúsi eða byggingarvinna, en það helgast að miklu leyti af tungumálaörðugleikum. Því betri tökum sem fólk nái á íslenskunni, segir Tetiana, þeim mun sterkar standi það að vígi.

Margir vilja snúa aftur heim

Staða Úkraínumanna hér og annars staðar er flóknari en margra annarra innflytjenda fyrir þær sakir að þeir eru að flýja stríðsátök. Það þýðir að þeir fluttu ekki af fúsum og frjálsum vilja og hafa ábyggilega margir hverjir vilja til að snúa aftur heim – þegar það verður öruggt.

„Við sáum þetta sem tímabundið ástand, alla vega til að byrja með. En því lengur sem stríðið stendur og landið okkar laskast meira, þeim mun flóknara verður málið. Innviðir eru víða illa farnir og lífsskilyrðin ekki góð, þannig að sumir sjá það ekki sem fýsilegan kost að snúa aftur heim. Þótt það viðhorf kunni að breytast þegar friður kemst loksins á. Við þurfum að losna við Rússana úr landinu okkar áður en hægt er að plana framtíðina.“

Og það verður væntanlega ekki í bráð?

„Það er ómögulegt að spá fyrir um lok þessa hræðilega stríðs. Ég hreinlega treysti mér ekki til að segja neitt um það.“

Tvö ár eru liðin um þessar mundir frá því Rússar réðust inn í Úkraínu. Þessum tímamótum hafa verið gerð góð skil í Morgunblaðinu síðustu daga og svo verður áfram næstu daga.

Nánar er rætt við Tetiönu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert