Óheppinn Frakki vill mótmæla borginni

Kévin Pagés, íbúi við Nesveg, telur Bílastæðasjóð áreita íbúa við …
Kévin Pagés, íbúi við Nesveg, telur Bílastæðasjóð áreita íbúa við götuna. Samsett mynd

Rakel Elíasdóttir, deildarstjóri reksturs Bílastæðasjóðs, segir ástæðu þess að íbúi við Nesveg hafði fengið sekt sína vegna stöðubrots á Nesvegi niðurfellda vera þá að bílastæðavörður hafi ekki gert rétta brotalýsingu við gerð sektarinnar.

Slíkt hafi ekki verið uppi á teningnum í tilfelli Nönnu Gunnarsdóttur, sem einnig býr að Nesvegi og hefur verið sektuð tvívegis vegna stöðubrota á stuttum tíma. Nanna kallaði eftir jafnræði þannig að íbúar sem hefðu fyrirvaralaust fengið sekt fyrir að leggja við heimili sín myndu fá sekt niðurfellda. 

Rakel segir það tilviljun að íbúar við Nesveg hafi verið óvenju oft sektaðir undanfarið. Franskur íbúi við götuna skilur ekkert í því hvers vegna það sem hann segir ofríki borgarinnar sé ekki mótmælt.  

Lítur stöðubrotið að þvi að íbúar hafa haft þann háttinn á að leggja við innkeyrslu sína í stað þess að fara alveg inn í hana. Segja íbúar það gert til að tryggja öryggi gangandi vegfarenda. 

Skipulag eftirlits handahófskennt

Íbúar við götuna hafa lagt með þessum hætti áratugum saman án athugasemda. Hófst sektarherferð borgarinnar í nóvember á þessu ári.

Hvað er það sem veldur því að skyndilega eykst tíðni sekta við eina götu þegar ekki hefur verið sektað fyrir tiltekin stöðubrot áratugum saman?

„Skipulag eftirlitsins ræðst af handahófi á degi hverjum og hrein tilviljun á hvaða stað stöðuverðir eru staddir á hverjum tíma,“ segir Rakel.

Aðspurð segir hún að sektað hafi verið fyrir 11 stöðubrot í götunni frá nóvember og fram í febrúar.

Til samanburðar voru engar sektir á sama tímabili fyrir ári síðan.

Íbúar geta ekki lengur lagt við hús sitt.
Íbúar geta ekki lengur lagt við hús sitt. Ljósmynd/Aðsend

Getur ekki hlaðið bílinn 

Þriðji íbúinn við Nesveg, Frakkinn Kévin Pagés, setti sig í samband við mbl.is. Hann hefur búið þar í fjögur ár en hefur verið einstaklega óheppinn hvað varðar handahófskennt eftirlit borgarinnar og fengið þrjár sektir frá því í nóvember fyrir að leggja við innkeyrslu sína. Enga fékk hann fjögur árin þar á undan.

„Borgin tók skyndilega upp á því að áreita okkur og nú sit ég uppi með þrjár stöðubrotssektir frá því í nóvember," segir Kévin.

Hann segir málið afar bagalegt fyrir fjölskylduna þar sem hann hefur hlaðið bílinn í stæði við heimili sitt. „Maður er hvattur til að kaupa umhverfisvænan bíl en nú getur maður ekki hlaðið hann,“ segir Kévin.

„Borgin tók skyndilega upp á því að áreita okkur og nú sit ég uppi með þrjár stöðubrotssektir frá því í nóvember," segir Kévin.

Stöðubrot geta komið við pyngjuna og kauninn á fólki.
Stöðubrot geta komið við pyngjuna og kauninn á fólki. mbl.is/​Hari

Hann bendir á að önnur bílastæði við götuna séu af skornum skammti. Aukinheldur séu þau gjarnan full af snjó á veturna og telur hann ónóga snjóhirðu borgarinnar gera það að verkum að íbúum sé þröngur stakkur búinn hvað bílastæði varðar við götuna.

Skilur ekkert í aðgerðarleysi fólks

„Þegar ég keypti húsnæðið voru fjögur stæði við húsið sem hvert tilheyrði sinni íbúð. Allt gekk vel og það voru engin vandamál þar til borgin byrjaði að sekta,“ segir Kévin.

Kévin Pagés
Kévin Pagés Ljósmynd/aðsend

Hann segist lítið skilja í hugsunarhætti Íslendinga og vill hvetja íbúa til þess að mótmæla því sem hann kallar spillt kerfi.

„Sem Frakki skil ég ekkert í því hvers vegna allir eru svona mikið til baka. Á svona litlu landi væri hægt að breyta hlutunum á stuttum tíma ef fólk myndi bara mótmæla. En það gerir það ekki. Það borgar bara meira í staðinn,“ segir Kévin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert