Fullur á ættarmóti og vaknaði í fangaklefa

Maðurinn sagðist hafa verið á ættarmóti um kvöldið og drukkið. …
Maðurinn sagðist hafa verið á ættarmóti um kvöldið og drukkið. Svo man hann næst þegar hann vaknaði í fangaklefa, en í millitíðinni reyndi hann að komast inn í hús hjá ókunnugu fólki og kýldi húsráðanda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karlmaður var í síðustu viku dæmdur í tveggja mánaða fangelsi í Héraðsdómi Vesturlands fyrir húsbrot, líkamsárás og ölvunarakstur. Var hann sakfelldur fyrir að hafa keyrt fullur að húsi hjá ókunnugu fólki, reynt að brjóta sér leið inn í húsið og að lokum árás á annan húsráðandann þegar þau reyndu að varna manninum inngöngu inn um glugga á baðherbergi.

Í vörn sinni bar maðurinn við minnisleysi frá kvöldinu vegna ölvunar, en hann taldi sig vera að leita að ættarmóti.

Lögreglan fékk tilkynningu um mann í annarlegu ástandi við hús eitt á öðrum tímanum aðfaranótt sunnudags í júlí 2022. Þegar komið var að húsinu var maðurinn þar fyrir utan illa áttaður og sjáanlega ölvaður og nokkuð æstur. Sagðist hann hafa fengið far með vinukonu sinni og væri að leita að ættarmóti sem hann hafi ætlað á.

Varð æstur og barði á hurðar og glugga

Lýstu húsráðendur, maður og kona, því fyrir dómi að hinn óboðni gestur hafi ekið hratt í hlaðið og stöðvað þar. Hann hafi verið að spila háa tónlist í bílnum og að bifreiðin hafi verið útötuð í gróðri að framan.

Konan lýsti því að hún hafi farið og kannað ástand gestsins. Hann hafi svo orðið nokkuð æstur og þau hafi áttað sig á að hann væri undir einhvers konar áhrifum. Þau hafi orðið hrædd og farið aftur inn í húsið og læst sig inni, en aðrir í fjölskyldunni voru einnig inni í húsinu.

Er haft eftir hjónunum að maðurinn hafi farið að berja á hurðar og glugga hússins, en hann meig einnig á útidyrahurð hússins og tók upp heimagert sverð sem hann sveiflaði í kringum sig.

Reif upp glugga og reyndi að troða sér inn

Fyrst um sinn ræddi konan við hann út um baðherbergisglugga og þar sagði gesturinn ástæðu fyrir veru sinni vera ættarmót. Því næst sagðist hann vera kominn til móður sinnar og enn síðar að hann væri orðinn graður og ætlaði að hafa kynmök við konuna. Upplýsti hann á þessum tíma einnig um gælunafn sitt og að hann væri sjómaður.

Hjónin lýstu því svo að hann hafi togað upp baðherbergisgluggann og reynt að komast inn. Maður konunnar hafi þá stokkið til og ýtt hinum óboðna gesti út á ný, en gesturinn þá rifið í húsráðanda og kýlt hann í andlitið. Konan hringdi í kjölfarið í lögregluna sem kom stuttu síðar á vettvang.

Var á ættarmóti og vaknaði í fangaklefa

Maðurinn neitaði sök og bar við minnisleysi. Sagðist hann hafa verið á ættarmóti að skemmta sér og drukkið, en svo vaknað upp í fangaklefa þar sem hann hafi upplifað hræðslu og kvíða. Sagðist hann ekki muna eftir neinu, né að hafa sagt lögreglu að honum hafi verið keyrt að húsi hjónanna af vinkonu sinni. Sagði hann að eftir að hann byrjaði á þunglyndislyfjum hafi hann átt til að fara í óminni við áfengisneyslu, en að hann væri í dag edrú og að hann færi á AA-fundi.

Verjandi hans gagnrýndi rannsókn lögreglunnar og sagði að bifreiðin hafi ekki verið rannsökuð né reynt að hafa upp á vinkonu mannsins. Þá taldi hann húsráðendur hafa verið ótrúverðug vitni.

Verjandinn gat hins vegar ekki svarað því þegar dómari spurði hvað væri ótrúverðugt við framburð hjónanna.

Lögregla sem kom á vettvang staðfesti fyrir dómi að ekki hafi verið rannsakað hvort húsbrot hafi átt sér stað, né heldur var upplýst af hverju gögn úr búkmyndavélum höfðu ekki verið vistuð.

Í engu tekið undir málsvörn mannsins

Dómurinn tók í engu undir málsvörn mannsins og segir þar að ekkert bendi til annars en að maðurinn hafi sjálfur komið sér í það ástand sem hann var í og hann framdi brotin. Þá teldi dómurinn framburð vitna afar trúverðugan.

Var það niðurstaða dómsins að ekki verði vefengt með skynsamlegum hætti, þrátt fyrir neitun mannsins, að hann hafi ekið undir áhrifum. Jafnframt er hann sakfelldur fyrir að ryðjast inn um glugga og ráðast með ofbeldi að húsráðanda þegar hann reyndi að varna inngöngu mansins.

Er tveggja mánaða skilorðsbundin refsing talin hæfileg, auk þess sem maðurinn er sviptur ökurétti í þrjú ár. Þá þarf hann að greiða tæplega 900 þúsund í sakarkostnað og málsvarnarlaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert