Skipulagðir hópar fjárkúga flóttamenn

Á Íslandi starfa um tuttugu skipulagðir glæpahópar, að mati yfirlögregluþjóns sem stýrir öryggis- og greiningarsviði ríkislögreglustjóra. Þessum hópum tengjast hundruð einstaklinga hér á landi. Eitt af þeim sviðum sem hóparnir hafa beitt sér á, er að „aðstoða“ flóttamenn við að komast til Íslands. Þetta er umsvifamikil starfsemi og þekkt um alla Evrópu. Ísland er þar engin undantekning.

Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn er gestur Dagmála Morgunblaðsins og mbl.is í dag og ræðir meðal annars þetta mál. Þekkt er að þegar skipulagðir brotahópar hjálpa fólki að komast til annarra landa þá er oftast greitt eftir á. Iðulega er um að ræða einstaklinga í bágri stöðu sem hafa litla sem enga fjármuni.

Eftir að komið er til nýja landsins er stór hluti þess fjármagns sem flóttafólkið vinnur sér inn tekið af því og rennur það til brotamannanna. Þær upphæðir sem þannig eru innheimtar eru oftar en ekki mun hærri eða margfalt það sem talað var um í upphafi. Gildir þá einu hvort viðkomandi flóttamaður vinnur sér inn laun eða fær fjárhagsaðstoð frá móttökuríkinu.

Miklar sögur gengu um að Venesúelabúar sem komu fjölmennir til Íslands væru á vegum skipulagðra brotahópa. Karl Steinar segir að í mörgum tilvikum sé um að ræða skrítnar tengingar. Hann vill ekki kveða fastar að orði en segir ljóst að Ísland sé engin undantekning frá öðrum löndum hvort sem er á þessu sviði eða öðrum þar sem glæpahópar starfa.

Í viðtalsbrotinu sem fylgir fréttinni ræðir Karl Steinar þessi mál, en þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert