„Óvissan er mikil og viðbragðstími er stuttur“

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir óvissuna vera mikla á Reykjanesskaga.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir óvissuna vera mikla á Reykjanesskaga. mbl.is/Óttar

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra tekur undir orð lögreglustjórans á Suðurnesjum um að varhugavert sé að dvelja í Grindavík um þessar mundir.

„Það hefur endurtekið komið fram að búseta í Grindavík við þessar aðstæður og á þessum tímapunkti er varhugaverð. Óvissan er mikil og viðbragðstími er stuttur,“ segir Guðrún í skriflegu svari til mbl.is spurð hvort að forsvaranlegt sé að íbúar dvelji í bænum.

Segir hún ákvörðun um rýmingu vera í höndum Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum.

Ljúka uppbyggingu varnargarða

Guðrún segir að frá síðasta gosi hafi sleitulaus vinna átt sér stað bæði við uppbyggingu varnargarða og við að verja vatnslagnir sem hafa orðið fyrir tjóni.

„Síðastliðinn föstudag tók ég ákvörðun, að fenginni tillögu Ríkislögreglustjóra, að ljúka uppbyggingu varnargarða utan við Grindavík. Er því unnið að því hörðum höndum að tryggja betur innviði en það er ljóst að verkefnið er stórt og óvissan er gríðarleg.

Við erum með okkar allra helstu sérfræðinga að störfum,“ segir hún spurð hvort að innviðir séu betur tryggðir nú en fyrir síðasta gos.

Tjáir sig ekki um of um stakar sviðsmyndir

Spurð að því hvað sé til ráða til að tryggja afhendingu heits vatns til Suðurnesja ef til þess kæmi að það gysi innan varnargarðana og virkjunin í Svartsengi yrði undir hrauni segir Guðrún:

„Almannavarnir vinna samkvæmt vönduðu skipulagi og ferlum og hluti af því ferli er að velta upp öllum mögulegum ógnum og sviðsmyndum. Hættunni sem stafar af einstaka atburðum er þá teflt á móti líkindunum á því að af þeim verði. Það er svokallað áhættumat almannavarna sem er stöðugt í gangi,“ segir Guðrún og bætir við:

„Ég held að ráðherra ætti ekki að vera of mikið að tjá sig um stakar sviðsmyndir – til þess höfum við sérfræðinga almannavarna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert