Ákveðið kapphlaup við tímann

Verið er að klára efsta hlutanna á varnargarðinum við Grindavík.
Verið er að klára efsta hlutanna á varnargarðinum við Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ari Guðmundsson, verkfræðingur hjá Verkís, segir vel miði í vinnu við varnargarðana nærri Grindavík en unnið er allan sólarhringinn, sex daga í viku.

„Vinnan gengur í sjálfu sér mjög vel. Við höfum síðustu daga verið að vinna annan áfangann austan megin og erum að undirbúa vestan megin líka í næstu áföngum sem er meðfram Nesvegi. Þá erum við að klára efsta hlutann á Grindavíkurgarðinum sem við vorum að vinna í,“ segir Ari í samtali við mbl.is.

Ari segir að vinnan sé ákveðið kapphlaup við tímann enda sé unnið allan sólarhringinn sex daga vikunnar. Hann áætlar að á bilinu 40-50 taki þátt í starfinu.

„Við erum búnir að fergja allar lagnir Svartsengismegin og undirbúa okkur ágætlega á því svæði,“ segir Ari.

Meðvitaðir um yfirvofandi hættu

Hann segir að menn séu meðvitaðir um yfirvofandi hættu vegna hugsanlegs eldgoss en vísindamenn hafa spáð því að það geti dregið til tíðinda á allra næstu dögum.

„Við erum búnir að fara vel yfir alla öryggisþætti í samvinnu við almannavarnir. Starfsmenn frá boð frá tetrastöð og sms eins fljótt og mögulegt er ef eitthvað fer af stað,“ segir Ari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert