„Hefði getað endað sem margra bíla árekstur“

Sólborg þurfti að víkja fyrir rútu sem var á þeysireið …
Sólborg þurfti að víkja fyrir rútu sem var á þeysireið á móti umferð. Samsett mynd/mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólborg Guðbrandsdóttir var einn þeirra ökumanna sem þurfti að víkja út í kant á Reykjanesbrautinni í gær þegar rútu var ekið á þeysireið á móti umferð. Hún segir að þetta hefði getað endað sem margra bíla árekstur.

„Þetta er bara stundar panikk en ég var fljót að ná mér aftur niður. Er bara þakklát fyrir það að við brugðumst öll hratt við,“ segir Sólborg í samtali við mbl.is. 

Eins og mbl.is greindi fyrst frá þá var rútan í umsjón bifreiðaverkstæðisins Vélrás þegar atvikið átti sér stað. Sæv­ar Guðmunds­son, aðal­varðstjóri hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, sagði í sam­tali við mbl.is fyrr í dag að málið væri al­var­legt og með ólík­ind­um.

Munaði nokkrum sekúndum

Sólborg var akandi á meðal fremstu bíla sem mættu rútunni og þurftu þeir allir að víkja út í kant.

Sólborg segir að það hafi aðeins munað nokkrum sekúndum á milli rútunnar og fremstu bílana.

„Þetta er sjúklega fljótt að gerast og hefði getað endað sem margra bíla árekstur ef við hefðum ekki verið á tánum. Bara sem betur fer var hægt að beygja örlítið út í kannt því bílstjórinn keyrði mjög hratt fram hjá okkur,“ segir Sólborg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert