Lítur svo á að viðræður séu enn í gangi

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Kristinn Magnússon

„Ég átti von á því að það yrði tekin ákvörðun en þú ert sú fyrsta til að færa mér þær fréttir,“ sagði Sigríður Margrét Oddsdóttir, formaður Samtaka atvinnulífsins, er blaðamaður mbl.is innti hana um viðbrögð við ákvörðun samninganefndar Eflingar um að boða til atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir. 

„Okkar viðbrögð við boðuðum verkfallsaðgerðum Eflingar eru fyrst og fremst þau að við lítum svo á að viðræður séu enn í gangi,“ segir Sigríður.

Viðræðurnar hafi staðið yfir í langan tíma, formlega frá því 28. desember en óformlega frá því í nóvember.

„Okkar einlægi vilji er auðvitað sá að við náum samkomulagi við Eflingu og önnur stéttarfélög og landssambönd í breiðfylkingunni án þess að það komi til aðgerða,“ segir Sigríður en hún kveðst gera fastlega ráð fyrir því að fundað verði í kjaraviðræðunum á næstu dögum.

Lokaniðurstaðan að samningar náist

Spurð hvort SA væru viljug til að taka upp umræður að nýju um þau atriði sem Eflingu, ásamt Starfsgreinasambandinu, hafi misboðið í gær til að forðast verkfallsaðgerðir svarar Sigríður:

„Það eru allir sem sitja við þetta samningaborð með mikla ástríðu fyrir hagsmunum sinna félagsmanna og líka með ástríðu fyrir því að þetta verkefni takist. Það er þess vegna eðlilegt að það sé verið að takast á, á meðan við erum að fara í gegn um þetta ferli.“

Segir Sigríður að það að gera langtímakjarasamninga við mörg stéttarfélög og landssambönd samtímis sé auðvitað flókið viðgangsefni og því margt sem þurfi að hafa í huga við samningagerð. 

„Lokaniðurstaðan er auðvitað sú að við þurfum að gera og munum gera kjarasamninga.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert