Fylgistap VG „ekki sanngjörn niðurstaða“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG segir fylgistap flokksins mikil …
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG segir fylgistap flokksins mikil vonbrigði. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstrihreyfingar – græns framboðs, segir fylgistap flokksins ekki vera sanngjarna niðurstöðu fyrir hreyfinguna og vera mikil vonbrigði sem hljóti að vekja flokksmenn til umhugsunar.

Hún segir mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar vera að ná niður verðbólgunni og að þrátt fyrir það að flokkarnir séu ósammála í ýmsu málum þá séu þau skuldbundin því að ljúka verkefninu. 

„Þetta er ekki ásættanleg staða“

„Ég get ekki sagt að mér finnist þetta vera sanngjörn niðurstaða fyrir hreyfingu sem hefur leitt ríkisstjórnina í gegnum síendurteknar hamfarir sem ég tel okkur hafa haldið vel utan um,“ segir Katrín er blaðamaður ber undir hana niðurstöður nýjustu könnunar Þjóðarpúls.

Samkvæmt könnuninni nær VG ekki inn þingmanni ef gengið yrði til kosninga í dag.

„Þetta bága fylgi sem er búið að vera í nokkrum könnunum er mikil vonbrigði, en þetta hlýtur að vekja okkur öll í hreyfingunni til hugsunar um okkar stöðu. Það er ekkert hægt að horfa framhjá því að þetta er ekki ásættanleg staða.“

Ríkisstjórnin fundar næsta þriðjudag

Spurð út í stöðu húsnæðismála í Grindavík svarar Katrín: „Það er búið að vinna mikið í þessum málum undir forystu innviðarráðherra og það er búið að vera kaupa íbúðir eins og kunnugt er og það er búið að vera að undirbyggja það að hægt verði að byggja upp einhvers konar einingarhús, bæði til lengri og styttri tíma litið.“

„Þetta eru tólf hundruð heimili sem voru í Grindavík og þetta tekur sinn tíma. Listinn yfir þau sem skortir húsnæði hefur styst, en það eru enn þá úrlausnarefni.“

Þá segir hún að ríkisstjórnin muni taka stöðuna næstkomandi þriðjudag, en ekki gafst tækifæri til þess að ræða málin innan ríkisstjórnarinnar í þessari viku sökum kjördæmaviku.

Ekki ástæða til að grípa inn í viðræður 

Spurð út í hennar mat á stöðu kjaraviðræðnanna segir Katrín: 

„Ég er auðvitað bara að fylgjast með og á meðan fólk er að tala saman þá er það jákvætt og ég vona að það gangi eftir.“

Þá segir hún ríkið tilbúið með aðgerðir tengdar kjaraviðræðunum og að nú sé verið að reyna að fá sveitarfélögin með í þær aðgerðir.

„Ég ætla að halda áfram að vera bjartsýn og það er algjört lykilatriði að hér náist langtímakjarasamningar fyrir langtímaþróun efnahagsmála.“

Þannig þú sérð ekki ástæðu til þess að ríkið grípi inn í?

„Nei, nei, nei,“ segir Katrín ákveðin.

Leggur áherslu á heildarsýn í útlendingamálum

Hvað útlendingamálin varðar segir Katrín frumvarpið um breytingar á útlendingalögum, sem afgreitt var úr ríkisstjórn, vera tilraun til að færa löggjöfina hér nær því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum.

„Það er ekki hægt að nálgast þessi mál einangrað bara út frá lögum um þau sem koma hingað og sækja um alþjóðlega vernd. Við þurfum að hafa ákveðna sýn hvað varðar annað flóttafólk eins og kvótaflóttafólk,“ segir Katrín og bætir við að sökum þess fjölda sem hefur komið til landsins síðustu ár hafiÍsland ekki getað tekið á móti kvótaflóttafólki af ráði.

„Við fórum frá því að vera með um það bil 8% innflytjenda og flóttafólks árið 2012 upp í hátt í 19%, sem er auðvitað rosaleg samfélagsleg breyting, en þess vegna legg ég áherslu á þessa heildarsýn.“

„Það er gríðarlega mikilvægt að við séum með skýra sýn um það að hér hafi öll sömu tækifæri líka þau sem hafa ekki íslensku að móðurmáli og íslensku kennsla er algjör lykill að samfélaginu og þar þarf að gera miklu meira. Við þurfum að huga að inngildingu og við getum ýmislegt lært af örðum Norðurlöndum í því.“

Þá segir Katrín börn innflytjenda frekar detta úr námi mögulega vegna íslensku kunnáttu eða sökum annarra ástæðna:

„Þetta er bara eitthvað sem við þurfum að laga.“

Skuldbundin því að ná verðbólgunni niður

Spurð út í stöðu ríkisstjórnarsamstarfsins segir Katrín: 

„Við erum bara áfram að vinna að okkar verkefnum og við sögðum það í haust að okkar mikilvægasta verkefni væri að ná niður verbólgunni, tryggja forsendur til að hægt verði að lækka vexti og skapa forsendur til þess að þessi markmið næðust,“ segir hún og heldur áfram:

„Ég lít svo á að aðgerðir okkar í tengslum við kjarasamninga sé lykill að því. Annar lykill er að við komum okkur saman um fjármálaáætlun til næstu ára.“

„Það eru ýmiss mál sem flokkarnir hafa ekki verið  sammála um, en við ræddum í haust að þetta væri stóra verkefnið og ég lít svo á að við séum skuldbundin því að ljúka því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert