Hafa áhyggjur af fólki á svæðinu

Erfitt er að segja til um hversu mikill tími gefst …
Erfitt er að segja til um hversu mikill tími gefst til að rýma svæðið ef til goss kemur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, segir almannavarnir í startholunum og bíði eftir því að eldgos hefjist. 

„Okkar áhyggjuefni er að koma skilaboðunum til fólks þegar og ef þetta gerist, en við erum náttúrulega miklu meira að vinna með þegar heldur en ef,“ segir Hjördís.

Erfitt að segja til um fyrirvara eldgossins

Hjördís segir almannavarnir hafa mestar áhyggjur af fólki á svæðinu, bæði þeim sem dvelja í Grindavík og í Svartsengi. Er það aðallega vegna óvissunnar um hversu mikill tími muni gefast til þess að rýma svæðið. 

„Viðvörunarflauturnarnar eru komnar upp og það er gott að hafa þær vegna þess að þær ættu ekki að fara á milli mála, en það breytir því ekki að viðvörunartíminn gæti verið stuttur,“ segir Hjördís og bætir við að jafnframt sé óvíst hvar kvika muni hugsanlega brjóta sér leið upp á yfirborðið. 

„Þrátt fyrir að vísindamenn séu að gera ráð fyrir að eldgosið komi upp á tilteknum stað þá er í raun enginn sem getur sagt til um það.“

Veðurstofan talar um að fyrirvarinn gæti verið hálftími, en jafnframt að hann gæti verið sex tímar. 

„Það er akkurat það sem við höfum verið að benda á. Við megum ekki verða ónæm fyrir þessum upplýsingum, þrátt fyrir að við séum að heyra þær núna aftur og aftur, kerfið má ekki verða þannig því oftar sem við heyrum þetta. En vissulega er þetta þannig að við erum meira að bíða eftir þessu gosi heldur en ekki.“ 

Góð samvinna í Grindavík 

Hjördís segir þá sem dvelja á svæðinu þó mjög meðvitaða um stöðuna og tilbúna að hlaupa frá þegar viðvörunarbjöllurnar fara af stað. Í því samhengi hafa almannavarnir biðlað til Grindvíkinga að leggja bílunum sínum í akstursstefnu, auk þess að biðla til vinnuveitenda um að hafa sínar viðbragðsáætlanir á hreinu. 

„Svo finnur maður það líka að fyrirtækjaeigendur í Grindavík eru mjög meðvitaðir um stöðuna og fæstir á svæðinu í dag til dæmis. Það er miklu minni viðvera útaf því sem Veðurstofan hefur verið að segja,“ segir Hjördís og bætir við að fyrirtækjaeigendur séu vissulega að hlusta á tilmæli. 

Þannig að þau vilja greinilega gera allt til að fá að vera á svæðinu þegar það er talið óhætt? 

„Já eðlilega og þetta er bara samvinna. Það er akkúrat svona sem þetta á að vera, að þegar Veðurstofan flaggar sínum flöggum, þá hlusti ekki bara við heldur líka þessir aðilar sem eru að láta þetta ganga upp hjá sér í Grindavík.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert